Fótbolti

Nígería og Egyptaland komin í undanúrslit í Afríkukeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Egyptar fagna einu marka sinna á móti Kamerún.
Egyptar fagna einu marka sinna á móti Kamerún. Mynd/AFP

Sigurganga Egypta heldur áfram í Afríkukeppninni eftir að þeir slógu út Kamerúna í átta liða úrslitum í gær. Egyptar hafa unnið Afríkukeppnina í tvö síðustu skipti og mæta nú Alsír í undanúrslitaleiknum. Í hinum leiknum mætast Nígería og Gana.

Egyptaland vann 3-1 sigur á Kamerún í framlengdum leik. Achille Emana kom Kamerún í 1-0 á 28. mínútu en Ahmed Hassan jafnaði leikinn skömmu síðar. Mohamed Gedo kom Egyptum yfir á annarri mínútu framlengingarinnar og Ahmed Hassan innsiglaði síðan sigurinn úr aukaspyrnu.

Það verður stund hefndarinnar í undanúrslitaleiknum milli Egypta og Alsíringa því Alsír sló Egyptaland út í sérstökum umspilsleik um sæti á HM í Suður-Afríku í sumar.

Nígería komst einnig áfram í undanúrslit en þurfti vítaspyrnukeppni til að vinna Sambíu. Það var ekkert skorað í venjulegum leiktíma eða framlengingu en Nígería vann 5-4 í vítakeppninni. Nígería mætir Gana í undanúrslitunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×