Innlent

Kaninn þarf að færa sendi sinn

einar bárðarson
einar bárðarson
Lýðræðishreyfingin hefur ekki afnotarétt af útvarpstíðninni FM 100,5 samkvæmt ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunarinnar (PFS).

Í ákvörðun stofnunarinnar er meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að réttur Lýðræðishreyfingarinnar til afnota af tíðninni hafi fallið niður um miðjan janúar og stofnuninni hafi því verið heimilt að endurúthluta henni til Concert-KEF, sem rekur útvarpsstöðina Kanann á Keflavíkurflugvelli.

Lýðræðishreyfingin, sem útvarpaði Lýðvarpinu á tíðninni, óskaði eftir því við PFS 19. apríl að hún fengi tíðninni úthlutað á ný.

Heimild Kanans til að útvarpa á tíðninni úr núverandi aðstöðu í lyftuhúsi í Bláfjöllum rennur hins vegar út 1. ágúst næstkomandi. Það er sama aðstaða og Lýðvarpið nýtti sér fyrir sendi áður. PFS segir ekki verða leyft að útvarpa þar vegna rafsegulmengunar sem óheppileg sé þar sem margir fari þarna um.

Áður var gerð tilraun til að útvarpa úr húsi Mílu á svæðinu, en kom í ljós að útsending þaðan truflaði fjarskipti Flugstoða. Einar Bárðarson, útvarpsstjóri Kanans, segir unnið að því að finna varanlegan stað fyrir útvarpsmastur Kanans á svæðinu og gerir ráð fyrir því að útvarpsstöðin haldi tíðninni 100,5. „Allur hringlandi með útsendingartíðnina er mjög slæmur,“ segir hann. - óká



Fleiri fréttir

Sjá meira


×