Innlent

Engar viðræður í sjónmáli

Icesave málið gæti tafist um marga mánuði til viðbótar vegna versnandi efnahagsástands í Evrópu og ríkjandi óvissu í breskum og hollenskum stjórnmálum. Fjármálaráðherra segir að engar viðræður séu í sjónmáli.

Engar formlegar samningaviðræður hafa verið í gangi í Icesave málinu frá því að þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram í mars. Þingkosningar fara fram í Bretlandi á fimmtudag og bendir allt til þess að ný ríkisstjórn taki við völdum. Kosningarnar í Hollandi fara svo fram í byrjun næsta mánaðar. Fjármálaráðherra segir ólíklegt að viðræður hefjist fyrr eftir kosningarnar í Hollandi.

„Við höfum enga tryggingu fyrir því að við komum hlutunum í gang fyrr en eftir kosningar í báðum löndum og það sem verst væri ef einhverskonar erfiðleikar kæmu upp í stjórnarmyndun sem myndu lama stjórnkerfið eða draga úr því að við kæmum viðræðum aftur af stað eftir kosningar," segir Steingrímur.

Efnahagsástandið í Grikklandi gæti einnig haft áhrif en það hefur orðið til þess að verulega hefur dregið úr tiltrú manna að kreppunni í Evrópu sé lokið.

„Ég hef frekar áhyggjur af því ef að efnahagsástand er að versna á nýjan leik í Evrópu ef horfur eru á að vextir fari hækkandi að slíkir hlutir gætu orðið mótdrægari heldur en heldur en endilega stjórnarskipti í Bretlandi," segir Steingrímur.

„Ég get engu svarað um það. Annað en að samskipti eru enn í gangi. Ég las síðast í morgun tölvupóst sem að gekk á milli samninganefndanna í gær en það er ekki þannig ennþá að viðræður séu í sjónmáli," segir Steingrímur aðspurður hvort hann eigi ekki von á því að viðræður hefjist að nýju fyrr en eftir einhverja mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×