Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingar, segir að spara þurfi meira í yfirstjórn Ríkisútvarpsins. Engin málefnaleg rök eru fyrir launum Páls Magnússonar útvarpsstjóra sem eru 1,5 milljónir króna á mánuði, að mati þingmannsins.
Skúli segir í pistli á Pressunni að styrr hafi staðið um Ríkisútvarpið svo lengi sem hann muni eftir sér. Þrátt fyrir það hafi stofnunin alltaf notið trausts almennings. „Afnotagjöldin voru lengi vel umdeild og hötuð í ákveðnum kreðsum, pólitískar ráðningar í helstu stjórnunarstöður hafa verið úthrópaðar af fulltrúum allra flokka, útvarpsráð var gagnrýnt fyrir að vera með puttana í tittlingaskít og núverandi útvarpsstjóri hefur verið gagnrýndur fyrir meint ofurlaun, fréttalestur og flottræfilshátt," segir þingmaðurinn.
Skúli segir að lengi hafi loðað við Ríkisútvarpið sú gagnrýni að stjórnunarkostnaður þar sé mikill. „Athyglisvert er að Ríkisútvarpið greiddi 100 milljónir króna á síðasta ári til tíu helstu stjórnenda stofnunarinnar eða svipaða upphæð og til kaupa á innlendu efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Þar af voru laun og hlunnindi útvarpsstjóra 18 milljónir króna eða 1,5 milljón króna á mánuði," segir Skúli. Hann bendir á að tekjur útvarpsstjóra eru mun hærri en laun forsætisráðherra og flestra stjórnenda opinberra stofnana og fyrirtækja. Fyrir því eru ekki málefnaleg rök, að mati Skúli.
„Nú er rétt að halda því til haga að tekið hefur verið til í rekstrinum á undanförnum misserum og tókst t.d. að bæta rekstrarniðurstöðu milli ára um tæplega 500 milljónir á síðasta ári með víðtækum sparnaðaraðgerðum. Eftir stendur að yfirbyggingin er stór og þung og eðlileg krafa að forgangsraðað sé í þágu dagskrár og fréttaþjónustu með auknum sparnaði í yfirbyggingu," segir Skúli í pistlinum sem er hægt að lesa hér.
