Íslenski boltinn

Formaður Vals: Þurftum reynslumeiri þjálfara

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Friðjón vill halda Sigurbirni Hreiðarssyni sem er lengst til vinstri á myndinni.
Friðjón vill halda Sigurbirni Hreiðarssyni sem er lengst til vinstri á myndinni.

Friðjón R. Friðjónsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, segir að stjórn deildarinnar hafi talið liðið þurfa reynslumeiri þjálfara en Gunnlaug Jónsson.

Valur sendi frá sér tilkynningu í kvöld þar sem fram kom að Gunnlaugur yrði ekki áfram með liðið og að Kristján Guðmundsson, fyrrum þjálfari Keflavíkur, tæki við hans starfi.

„Þetta var mjög erfið ákvörðun en við töldum að Valur þurfi reyndari þjálfara. Ég hef allt gott um Gunnlaug að segja og líkar vel við hann persónulega," sagði Friðjón í samtali við Vísi.

Óvíst er hvort að James Bett verði áfram aðstoðarþjálfari Vals og hið sama má segja um Kristján Finnbogason markmannsþjálfara.

„Þetta kemur allt í ljós á næstu dögum," sagði Friðjón.

Þá er Sigurbjörn Örn Hreiðarsson fyrirliði samningslaus en Friðjón sagðist vilja halda honum. „Við ætlum að halda Bjössa á Hlíðarenda. Hans hlutverk kemur líka í ljós á næstu dögum."

Spurður um hvaða kröfur væru gerðar til Kristjáns sagði Friðjón einfaldlega: „Við vonum að 100 ára afmælisár Vals verði glæsilegt og að það verði spilaður skemmtilegur fótbolti. Ég vil sem fæst orð hafa um titla en við ætlum að byrja á því að styrkja leikmannahópinn og sjá svo til hvað næstu vikur og mánuðir hafa í för með sér."

„Við viljum einfaldlega hafa Val í þeim hæðum sem Valur á að vera í."




Tengdar fréttir

Gunnlaugur hættur hjá Val

Gunnlaugur Jónsson verður ekki áfram þjálfari Vals í Pepsi-deild karla samkvæmt heimildum Vísis.

Kristján tekur við af Gunnlaugi

Valur hefur tilkynnt að Kristján Guðmundsson verði næsti þjálfari Vals og tekur hann við starfinu af Gunnlaugi Jónssyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×