Innlent

Tveggja ára börnum tryggð leikskólavist í Reykjavík

Borgarráð ákvað á fundi sínum í dag að fjölga leikskólaplássum í Reykjavík svo hægt sé að bjóða öllum börnum sem verða tveggja ára á árinu leikskólapláss í haust eins og stefna og starfsáætlun Reykjavíkurborgar kveður á um. Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, lagði tillöguna fram. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Leikskólaplássum verður fjölgað bæði í borgarreknum og sjálfstætt starfandi leikskólum þannig að öll börn, sem verða tveggja ára á þessu ári, fá bréf um leikskólavistun fyrir haustið í þessum mánuði. 1400 börn hefja í fyrsta sinn leikskólagöngu í Reykjavík í haust en aldrei hafa fleiri leikskólabörn fengið þjónustu í borginni en nú.

Í tilkynningunni segir að valkostir fyrir foreldra í Reykjavík hafi aldrei verið fleiri. Um 6800 börn eru í leikskólum borgarinnar auk þess sem um allt að 800 börn þiggja þjónustu dagforeldra og 700 þjónustutryggingu. Dagforeldrum hefur fjölgað um a.m.k. tuttugu frá áramótum en efnt var til réttindanámskeiðs með það að markmiði að fjölga þeim þar sem þörf hefur verið á.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×