Skoðun

Góðverk á annarra kostnað

Ögmundur Jónasson, núverandi ráðherra og fyrrverandi formaður BSRB, lýsti því yfir nýverið að hann væri fylgjandi hugmyndum Hagsmunasamtaka heimilanna um almenna niðurfellingu skulda. Þessar tillögur gera ráð fyrir að lánardrottnar gefi eftir af kröfum sínum til þess að gera þetta kleift.

Í tillögum frá Hagsmunasamtökum heimilanna má m.a. lesa eftirfarandi:

„Gerð er tillaga um að kaupendur húsbréfa, húsnæðisbréfa og annarra skuldabréfa, sem Íbúðalánasjóður hefur notað til að fjármagna útlán sín, taki þátt í leiðréttingunni. Leiðrétting verðtryggðra lána getur ekki átt sér stað án þess að Íbúðalánasjóði sé veitt svigrúm til slíkra leiðréttinga. Möguleikar sjóðsins til slíks eru takmarkaðir nema að lánardrottnar sjóðsins gefi eftir hluta af sínum kröfum."

Íbúðalánasjóður hefur að stórum hluta verið fjármagnaður af lífeyrissjóðunum og það yrðu því lífeyrissjóðirnir sem þyrftu að taka þessar niðurfærslur á sig. Skv. útreikningum myndu þær kosta um það bil 220 milljarða og þar af yrði hlutur lífeyrissjóðanna u.þ.b. 130 milljarðar.

Allir lífeyrissjóðir landsins urðu fyrir verulegu fjárhagstjóni af efnahagshruninu og hafa þeir sem greitt hafa til almennu lífeyrissjóðanna orðið fyrir talsverðum réttindamissi vegna skerðinga sem grípa þurfti til í kjölfarið.

Opinberu lífeyrissjóðirnir hafa einnig tapað verulegum fjármunum en munurinn á þeim og hinum almennu er sá að þar tapar enginn sínu vegna þess að ríkið ábyrgist að opinberir starfsmenn haldi fullum réttindum hvað sem tautar og raular.

Þessi tillaga sem Ögmundur Jónasson ráðherra hefur lýst sig samþykkan gengur út á það að skerða enn frekar réttindin í almennu lífeyrissjóðunum. Ögmundur heldur hins vegar alveg fullum réttindum í sínum sjóði. Til þess að svo megi verða, verður að hækka skatta annarra launþega sem því til viðbótar hefðu tekið á sig skerðingar á lífeyrisréttindum vegna niðurfærslu lána.

Það er einfalt að gera góðverk á annarra manna kostnað.




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×