Enski boltinn

Hannes: Hodgson er rétti maðurinn fyrir Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
AFP

Roy Hodgson var í vikunni ráðinn knattspyrnustjóri Liverpool en hann hefur á löngum ferli sínum víða komið við. Hann var þjálfari Viking í Noregi frá 2004 til 2005 en þá lék Hannes Þ. Sigurðsson með liðinu.

„Það kom mér ekkert á óvart að maður með hans getu og kunnáttu skuli hafa verið ráðinn til Liverpool," sagði Hannes í samtali við Fréttablaðið.

„Það kom mér frekar á óvart að hann hafi ekki fengið svona stórt verkefni áður. Hann er einfaldlega í þessum gæðaflokki."

Hannes segir að Hodgson sé fyrst og fremst afar skipulagður þjálfari. „Hann er með mjög fínar hugmyndir um hvernig eigi að spila og fylgir því eftir. Það er allt upp á 100 prósent hjá honum og allir leikmenn vita hvert þeirra hlutverk er upp á hár."

Hodgson var síðast þjálfari Fulham þar sem hann kom liðinu til að mynda í úrslitaleik Evrópudeildar UEFA. „Árangurinn hjá Fulham talar sínu máli. Hann hafði ekki mannskap til að ná svona langt en gerði það á gríðarlega öguðum leik. Leikmenn bera mjög mikla virðingu fyrir honum og eru tilbúnir að gera hvað sem er fyrir hann."

Sjálfur fékk Hannes mikið að spila undir stjórn Hodgson. „Við náðum mjög

vel saman og ég tel að ég hafi lært hvað mest af honum af öllum þeim þjálfurum sem ég hef verið með."

Hannes er sjálfur Liverpool-maður en hann spilaði um tíma með Stoke. „Ég hef nú mest fylgst með Stoke síðustu ár enda orðinn þreyttur á Liverpool. En ég held að það breytist núna fyrst Hodgson er kominn. Mér finnst hann rétti maðurinn til að snúa gengi liðsins við og að það hafi verið hárrétt hjá Liverpool að ráða hann. Hodgson er mikill nagli og veit upp á hár hvað hann er að gera. Hann er skemmtilegur karakter, hógvær og kurteis en þegar þess gerist þörf lætur hann í sér heyra."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×