Innlent

Segir reglugerðina vera fordæmalausa

Ekki hefur verið endurgreitt vegna nýrra tilvika frá því fyrir áramót. Reglugerðin frá því í mars átti að skerpa á alvarlegum tilfellum, vegna fæðingargalla, sjúkdóma eða slysa.fréttablaðið/vilhelm
Ekki hefur verið endurgreitt vegna nýrra tilvika frá því fyrir áramót. Reglugerðin frá því í mars átti að skerpa á alvarlegum tilfellum, vegna fæðingargalla, sjúkdóma eða slysa.fréttablaðið/vilhelm
„Hér með tilkynnist þér að ráðgert er að áminna þig fyrir brot á almennum starfskyldum ríkisstarfsmanna…" Þannig hefst bréf sem Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra sendi Steingrími Ara Arasyni, forstjóra Sjúkratrygginga Íslands, í síðustu viku. Ástæðan er erindi Steingríms til Ríkisendurskoðunar, án vitundar ráðherrans.

Erindið sneri að reglugerð um þátttöku sjúkratrygginga í nauðsynlegum tannlækninga- og tannréttindakostnaði vegna alvarlegra fæðingargalla, sjúkdóma eða slysa. Á fundi fjárlaganefndar Alþingis kom fram að forstjórinn hafði leitað til Ríkisendurskoðunar. Þar spurði hann eftir því hvort ríkisendurskoðandi væri sammála því að útfæra þyrfti nánar fjárhagsleg skilyrði sem uppfylla þyrfti, áður en til endurgreiðslu kæmi.

Steingrímur Ari segir tilkynninguna hafa komið sér mjög á óvart. Hann hafi verið að vinna að útfærslu reglugerðarinnar og í því skyni leitað til Ríkisendurskoðunar til að vanda til verka. „Ég var ekki að gagnrýna reglugerðina, heldur að kalla eftir leiðbeiningum um hvernig á að útfæra hana."

Hann segir reglugerðina vera fordæmalausa og því vandasamt verk að útfæra hana. „Almenna reglan er sú, eins og þeir vita sem hafa kynnt sér lögin um sjúkratryggingar, að annaðhvort eru til staðar samningar við þjónustuveitendur þeirrar þjónustu sem fellur undir sjúkratryggingarnar, eða, í undantekningartilvikum ef það er ekki samningur, þá skuli tryggja endurgreiðslur á gjaldskrá sem stofnunin hefur gefið út. Hvorugt er til staðar í þessu tilviki."

Álfheiður vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. „Ég ætla ekki að reka málið í fjölmiðlum og það er í stjórnsýslulegri meðferð. Andmælaréttur er til 13. apríl og í framhaldi af því verður tekin ákvörðun um hvað gert verður."

Fyrir áramót var sett reglugerð um endurgreiðslu vegna tannlækninga almennt. Tannréttingafræðingar hafa verið ósáttir við hana og hún ekki komið til framkvæmda. Reglugerðin í mars skerpti á alvarlegum tilvikum. Steingrímur Ari segir að ekki hafi verið greitt vegna neinna nýrra tilvika frá því fyrir áramót.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×