Innlent

Íslenskt skildingaumslag selt á fimm milljónir

Erla Hlynsdóttir skrifar
Skildingaumslagið. Á því eru tvö frímerki, tveggja skildinga og átta skildinga.
Skildingaumslagið. Á því eru tvö frímerki, tveggja skildinga og átta skildinga. Mynd: Thomas Høiland Auktioner

Ríflega aldar gamalt íslenskt skildingaumslag var selt á uppboði í Danmörku fyrir tæpar fimm milljónir íslenskra króna. Skildingaumslög eru afar fágæt enda skildingafrímerki aðeins í notkun í tæp fjögur ár, frá 1873 til og með 1876. Ekki er vitað hver keypti umslagið en ólíklegt er talið að þar hafi verið Íslendingur á ferð.

Frímerkt umslagið var boðið upp hjá Thomas Høiland Auktioner í Danmörku og var lægsta boð rúmar 200 þúsund danskar krónur eða um fjórar milljónir íslenskra króna. Vísir sagði frá því að búist væri við að umslagið færi á mun hærra verði. Það var slegið hæstbjóðanda þann 7. október.

Fjögur boð bárust

Aðeins bárust fjögur boð í umslagið og var það að lokum selt fyrir tæpar fimm milljónir. Með uppboðskostnaði og öðrum aukagjöldum má þó gera ráð fyrir að kaupandi hafi þurft að reiða fram allt að sex milljónir.

Hallur Þorsteinsson, formaður Félags frímerkjasafnara, veit ekki hver keypti skildingaumslagið en hann vissi þó af uppboðinu fyrirfram enda stór tíðindi í heimi frímerkjasafnara að skildingaumslag sé falt. Hann segir ólíklegt að Íslendingur hafi keypt umslagið en það sé ekki útilokað, jafnvel þó hann hafi ekki heyrt af því.

„Deyjandi hobbí"

„Menn eru nú hálf feimnir við að opinbera þetta því almenningur á oft erfitt með að skilja þetta. Ef fólk er þannig innstillt getur það litið á svona skildingaumslag einfaldlega sem bréfmiða sem aðrir eru að borga milljónir fyrir. Menn eru því ekkert rosalega viljugir til að viðurkenna slík kaup," segir Hallur.

Fyrirfram var búist við að skildingaumslagið færi á mun hærra verði en Hallur bendir á að það hafi verið eilítið tætt og það rýri verðið. „Sem er auðvitað mjög ósanngjarnt því þetta er svo gamalt. Það er ekki hægt að ætlast til þess að það sé alveg heilt," segir hann.

Í Félagi frímerkjasafnara eru um 200 félagar. Hallur segir að frímerkjasöfnun sé „deyjandi hobbí" og mestmegnis eldri menn sem nú safni frímerkjum.



Tengd frétt:

Fágæt íslensk frímerki - gætu farið á nokkrar milljónir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×