Lífið

Klippa fyrir Krabbameinsfélagið

Kristján Aage missti móður sína úr krabbameini fyrir ári. Hann og félagar hans á hársnyrtistofunni Sjoppunni klippa til styrktar Krabbameinsfélaginu á morgun. Fréttablaðið/stefán
Kristján Aage missti móður sína úr krabbameini fyrir ári. Hann og félagar hans á hársnyrtistofunni Sjoppunni klippa til styrktar Krabbameinsfélaginu á morgun. Fréttablaðið/stefán
„Við erum búin að spara daginn og reyndum að bóka ekki mikið svo hægt væri að fá sem flesta í heimsókn," segir Kristján Aage Hilmarsson, hárgreiðslumaður á Sjoppunni. Á morgun stendur stofan fyrir góðgerðadegi til styrktar Krabbameinsfélaginu þar sem starfsmenn Sjoppunnar bjóða upp á klippingu allan daginn, gegn frjálsu framlagi. „Fólk kemur í klippingu, borgar það sem það vill og allur peningurinn fer beint í Krabbameinsfélagið," segir Kristján.

Hinn 24. nóvember í fyrra lést móðir Kristjáns úr krabbameini en hún hafði barist við sjúkdóminn í tvö ár. Á miðvikudaginn er því ár síðan móðir hans lést. „Ég er elstur af fjórum systkinum og þó að þetta sé búið að vera erfitt fyrir mig er þetta búið að vera enn erfiðara fyrir yngri systkini mín. Þetta er búið að vera átakanlegt ár," segir Kristján, sem telur að annar hver Íslendingur þekki krabbamein að einhverju leyti. „Þetta er mjög útbreiddur sjúkdómur og snertir marga. Okkur á stofunni langaði að gera eitthvað gott fyrir hátíðirnar," segir Kristján.

En hvað gerir þá fólk sem vill koma í klippingu og leggja málefninu lið? „Við mælum með því að fólk hringi og panti tíma á undan. Við erum níu að vinna hérna svo við ættum að geta klippt vel yfir daginn. En annars er öllum velkomið að koma í heimsókn og fá kaffi," segir Kristján og bætir við að fólki sé að sjálfsögðu frjálst að styrkja sjóðinn þó að það þiggi ekki klippingu.

Hægt er að panta tíma hjá Sjoppunni í síma 511 1221, en stofan er í Bankastræti 14. - ka





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.