Innlent

Skáksambandið styður Karpov

Anatoly Karpov og Garry Kasparov.
Anatoly Karpov og Garry Kasparov.
Skáksamband Íslands hefur lýst yfir stuðningi við framboð Anatoly Karpov í embætti forseta Alþjóðaskáksambandsins FIDE. Forsetaembættið hefur löngum þótt hápólitískt. Í 15 ár hefur Kirsan Ilymzhinov gegnt embættinu en nú hefur Karpov fyrrverandi heimsmeistari í skák boðið sig fram gegn honum.

Íslenska skáksambandið lýst yfir stuðningi sínum við framboð þess síðarnefnda. Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um málið og vitnað til orða Gunnars Björnssonar, forseta Skáksambands Íslands, sem segir að Garry Kasparov, fyrrverandi heimsmeistari í skák, hafi einnig lýst yfir stuðningi við sinn forna fjanda Karpov. Það þyki talsverð tíðindi.

Friðrik Ólafsson er fyrsti stórmeistari Íslands og fyrrverandi forseti FIDE en því embætti gegndi hann á árunum 1978-1982.

Friðrik sést hér tefla við Boris Spassky í húsnæði Landsbankans fyrir fjórum árum. Mynd/Stefán Karlsson
„Kasparov er mikill andstæðingur rússneskra stjórnvalda um þessar mundir og vill frekar að hans gamli erkióvinur, Karpov, komist að.

Hann er greinilega að vega og meta þetta og vill greinilega minnka áhrif rússneskra stjórnvalda innan FIDE," segir Friðrik.

Sjálfur fór Friðrik ekki varhluta af afskiptum rússneskra stjórnvalda af FIDE. Fyrir skákheiminn sjálfan sé Ilymzhinov ekki heppilegur. „Hann er talinn stunda ýmiskonar iðju sem er ekki heppileg fyrir skákina en þar á ég við um vissa spillingu," segir Friðrik um Ilymzhinov.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×