Innlent

Jón Gnarr tjáir sig um stóra skíðamálið

Erla Hlynsdóttir skrifar
Jón Gnarr segir að velta þurfi við hverjum steini til að spara
Jón Gnarr segir að velta þurfi við hverjum steini til að spara
Jón Gnarr borgarstjóri segir harkaleg viðbrögð við þeim hugmyndum hans að loka skíðsvæðinu í tvö ár hafa verið fyrirsjáanleg. „Viðbrögðin komu mér ekki á óvart. Mér fannst þau ekkert sérstaklega harkaleg. Ég held að flestir geri sér grein fyrir þeirri erfiðu stöðu sem við erum í og þetta vekur menn kannski til umhugsunar um að leita betri lausna varðandi rekstur í Bláfjöllum, sem og annarsstaðar," segir Jón.

Spurður hvort hugmyndin um lokun Bláfjalla hafi verið sett fram í hálfkæringi eða fúlustu alvöru, svarar hann: „Hvorugt. Þetta var sett fram sem dæmi um það sem við höfum verið að velta fyrir okkur. Þetta var gert til þess að gefa fólki smjörþefinn af því sem við erum að fást við. Það er velt við hverjum steini og í ljósi þess að opnun í Bláfjöllum var sáralítil síðasta vetur vildum við skoða þessa hugmynd."

Sjálfur segist Jón ekki vera skíðagarpur. „Nei, ég er ekki skíðamaður, en börnin mín hafa verið það í gegn um tíðina."

Í Kastljósi í fyrrakvöld ræddi borgarstjóri niðurskurðartillögur og sagði meðal annars: „Við erum með fullbúið skíðasvæði í Bláfjöllum. Það eina sem vantar upp á þar er snjór. Hvernig væri að loka Bláfjöllum í tvö ár til dæmis? Það myndu sparast 87 milljónir þar."

Í framhaldinu hafa fjölmargir fordæmt þessar hugmyndir, nú síðast stjórn Skíðaráðs Reykjavíkur.




Tengdar fréttir

Skíðasamfélagið brjálað út í Jón Gnarr

„Ég er brjáluð, er maðurinn klikkaður?“ spyr Heiður Hjaltadóttir, formaður skíðadeildar Breiðabliks, um ummæli Jóns Gnarrs, borgarstjóra Reykjavíkur, sem velti því fyrir sér í viðtali í Kastljósi í kvöld hvort það væri ekki góð hugmynd að loka skíðasvæðinu í Bláfjöllum í tvö ár.

Veltir fyrir sér að loka Bláfjöllum

Ýmsar sparnaðarleiðir eru til skoðunar hjá Reykjavíkurborg en alls þarf að stoppa upp í 4,5 milljarða króna gat hjá borginni en fjárlagagerð stendur nú yfir og stendur til að ljúka henni fyrir jól.

Jón Gnarr hætti að hugsa um Bláfjallalokun

Stjórn Skíðaráðs Reykjavíkur skorar á Jón Gnarr, borgarstjóra í Reykjavík að leggja til hliðar hugmyndir um að loka skíðasvæðinu í Bláfjöllum í sparnaðarskyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×