Íslenski boltinn

Ólafur: Við getum spilað fínan fótbolta ef við þorum því

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leiknum í gær.
Úr leiknum í gær. Fréttablaðið/Anton
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari var vitanlega ekki ánægður með úrslit leiksins á Laugardalsvelli í gær. Ísland tapaði fyrir Noregi, 2-1, eftir að hafa verið yfir í hálfleik.

„Við spiluðum fínan fyrri hálfleik. Við áttum von á því að Norðmenn myndu koma hærra á okkur og að það yrði meiri barátta í leiknum. En þeir gerðu það ekki, heldur gáfu okkur svæði sem við nýttum okkur vel. Við sýndum og sönnuðum fyrir okkur að við erum fínir í fótbolta og getum spilað ágætlega ef við þorum því."

Íslenska liðið náði hins vegar ekki að fylgja þessu eftir í síðari hálfleik.

„Það er erfitt að segja hvað klikkaði. Fyrsti hálftíminn í síðari hálfleik var skelfilegur. Við duttum óþarflega mikið til baka og fórum ef til vill í þann leik að reyna að verja forystuna og urðum kannski hræddir. Eftir þennan góða fyrri hálfleik vorum við í fínu færi til að klára leikinn í þeim síðari."

Hann segir að liðið hefði notað vængina minna í síðari hálfleik. „Í átta af hverjum tíu tilfellum þegar Jói [Jóhann Berg] og Gylfi fengu boltann komu sendingar fyrir markið. En mér fannst Gylfi ekki fá boltann nóg í síðari hálfleik."

Fyrstu skiptingar íslenska liðsins komu ekki fyrr en eftir að Norðmenn hefðu náð forystu. Spurður hvort Ólafur hefði átt að breyta til fyrr sagði hann einfaldlega: „Kannski, við vitum það aldrei."

Við tekur ferðalag til Danmerkur hjá íslenska liðinu þar sem liðsins bíður erfitt verkefni hjá Parken á þriðjudaginn.

„Það verður mun erfiðari leikur. Danirnir voru í fríi í kvöld og koma ef til vill ferskari til leiks," segir Ólafur. „Þetta verður auðvitað erfitt fyrir okkur og það hefði verið betra að fara út með annaðhvort eitt eða þrjú stig með okkur. Danir eru mun betri í fótbolta en Norðmenn og við verðum að sjá til hvort við eigum einhver brögð á móti þeim."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×