Innlent

Rannsókn hafin á slysinu að Fjallabaki

Sveinn K. Rúnarsson
Sveinn K. Rúnarsson
Rannsókn er hafin á tildrögum þess að tvennt beið bana á Fjallabaki norðan Mýrdalsjökuls í fyrradag. Lögreglan á Hvolsvelli fer með rannsóknina og nýtur liðsinnis rannsóknardeildar lögreglunnar á Selfossi.

Fólkið villtist af leið í útsýnisferð að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi og varð bensínslaust og símasambandslaust um 30 kílómetra frá Fljótshlíð. Hálfsextugur karlmaður og 43 ára kona urðu úti þegar þau yfirgáfu bílinn til að leita að hjálp en ein kona fannst á lífi eftir fjórtán kílómetra göngu. Hún hafði ekki verið yfirheyrð í gær en til stóð að gera það í gærkvöldi eða í morgun.

Fram kom í fréttum RÚV í gær að símasendum hefði verið komið upp á svæðinu, en þeir hefðu ekki verið í sambandi þar sem ekki hefur verið tengt í þá rafmagn.

Fólkið var í sambandi við lögreglu aðfaranótt mánudags eftir að það hafði fest sig úti í á, að því er það hélt í Gilsá. Fimm tíma leit lögreglu skilaði engum árangri en henni lauk þegar fólkið hafði samband á nýjan leik og sagðist vera óhult og komið af stað. Ekkert fréttist síðan af fólkinu fyrr en ættingjar þess lýstu áhyggjum af þeim nítján klukkustundum síðar.

Sveinn K. Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli, segir að hann og hans menn hafi velt því mikið fyrir sér hvort þeir hefðu átt að bregðast öðruvísi við þegar fólkið sagðist hólpið og á heimleið. „En við trúðum því bara og treystum sem fólkið sagði og höfðum enga ástæðu til að rengja það í sjálfu sér,“ segir Sveinn. „Við fáum svona símtöl í hverri viku. Þessi beiðni var ekkert ólík því sem gerist reglulega. Við sjáum ekkert í þessu ferli sem hefði átt að breyta þessari ákvörðun okkar.“

stigur@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×