Enski boltinn

Miklar skuldir gefa ekki ástæðu til að selja Gerrard eða Torres

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Broughton er hér til vinstri.
Martin Broughton er hér til vinstri. Mynd/AFP
Liverpool tilkynnti í dag tap upp á sextán milljónir punda á síðasta fjárhagsári sem endaði 31. júlí 2009. Þetta er mikil breyting frá árinu á undan þegar félagið tilkynnti hagnað upp á 10,2 milljónir punda.

Martin Broughton, nýr stjórnarformaður Liverpool, segir að mikið tap á síðasta ári þýði það samt ekki að félagið verið að selja sína bestu leikmenn.

„Það er alls engin ástæða til þess að selja annaðhvort Torres eða Gerrard. Ég vil ekki selja þá, Rafa vill ekki selja þá og það er enginn hjá klúbbnum sem ætlar sér að selja þá," sagði Broughton.

„Við þurfum ekki að selja þessa menn til þess að greiða upp einhverja skuld. Torres er einn af bestu mönnum heims og öll félög vildu fá hann til sín. Við höfum hann hjá okkur og höfum ekki í hyggju að selja hann," sagði Broughton ennfremur.

Skuldir Kop Holdings, eignarfélags Liverpool, voru upp á 351,4 milljónir punda í júlí á síðasta ári og það er því ljóst að staða félagsins er allt annað en góð.

Amerísku eigendurnir Tom Hicks og George Gillett Jr hafa gefið út að félagið sé til sölu og stuðningsmenn Liverpool vonast örugglega eftir bjartari tímum takist að fá fjársterkan aðila til að rífa upp starfið á Anfield.

Þangað til munu enskir fjölmiðlar örugglega velta sér upp úr framtíðarplönum leikmanna eins og Ferando Torres en spænski landsliðsmaðurinn hefur kallað eftir því opinberlega að félagið kaupi til sín sterka leikmenn fyrir næsta tímabil.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×