Innlent

Tugir hafa boðið sig fram til stjórnlagaþings

Erla Hlynsdóttir skrifar
Hávær krafa um stjórnlagaþing kom fram í búsáhaldabyltingunni. Það verður nú brátt að veruleika
Hávær krafa um stjórnlagaþing kom fram í búsáhaldabyltingunni. Það verður nú brátt að veruleika
Frestur til að skila inn framboðum til stjórnalagaþings rennur út á hádegi á mánudag. Ekki fást nákvæmar upplýsingar um hversu margir hafa þegar boðið sig fram en framboðin skipta nokkrum tugum.

Samkvæmt upplýsingum frá dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu er búist við á annað hundrað framboðum hið minnsta.

Mun færri konur en karlar hafa skilað inn framboðum og getur því farið svo að landskjörstjórn þurfi að nýta sér heimild til að fjölga fulltrúum á stjórnlagaþingi úr 25 í 31 til að auka hlut kvenna.

Hjalti Zóphóníasson, skristofustjóri hjá ráðuneytinu, segist hafa orðið var við aukinn áhuga fólks á stjórnlagaþinginu í þessari viku en viðurkennir að kynning á því hafi farið seint af stað.

Lög um stjórnlagaþing voru afgreidd í júní og fengu takmarkaða fjölmiðlaumfjöllun. Síðan hafi umræða um Landsdóm fangað athygli fjölmiðla umfram annað. Nú þegar tæp vika er til stefnu finnur Hjalti hins vegar að fólk er virkilega að taka við sér.

„Ég sagðist í byrjun búast við tvöhundruð til þrjúhundruð framboðum. Ég ætla bara að halda mig við það," segir hann.

Enginn frestur verður veittur til að skila framboðum og þurfa þau að hafa borist fyrir klukkan tólf á mánudag.

Reiknað er með því að listi yfir frambjóðendur verði kynntur í lok næstu viku.

Stjórnlagaþing kemur saman eigi síðar en 15. febrúar 2011 til að endurskoða stjórnarskrá Íslands.

Á vef dómsmála- og mannréttindaráðuneytisis er hægt að nálgast upplýsingar um hvernig skal bera sig að við framboð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×