Innlent

Mati Þeistareykja lokið í júlí

Bergur Elías Ágústsson er ósáttur við sameiginlega umhverfismatið. Það hafi haft kostnað í för með sér og sé alls ekki heildstætt.
mynd/völundur jónsson
Bergur Elías Ágústsson er ósáttur við sameiginlega umhverfismatið. Það hafi haft kostnað í för með sér og sé alls ekki heildstætt. mynd/völundur jónsson
Stefnt er að því að sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum vegna framkvæmda við Þeistareyki ljúki í júlí, að sögn Bergs Elíasar Ágústssonar, stjórnarformanns Þeistareykja og bæjarstjóra Norðurþings. Hann segir tafir vegna sameiginlegs mats hafa haft mikil áhrif á verkefnið og verið kostnaðarsamar.

„Öll orka okkar og allir fjármunir hafa farið í að klára þetta sameiginlega mat, á fjórum af átta framkvæmdaþáttum sem um ræðir. Okkar hendur eru náttúrulega bundnar þangað til því er lokið og þessi töf hefur kostað íbúa sveitarfélagsins gríðarlegar fjárhæðir, því miður.“ Vegna matsins hafi ekki verið unnt að ljúka rannsóknarborholum og því sé óljóst hve mikil orka er á svæði. Því hafi ekki verið hægt að ræða við mögulega kaupendur. „Við höfum náttúrulega áhugasaman kaupanda, en það er spurning hvort hann er þóknanlegur,“ segir Bergur og vísar þar til Alcoa.

Bergur segir sérkennilegt að matið hafi ekki tekið til allra framkvæmdaþáttanna, heldur aðeins línanna Þeistareykja, Kröflu II og álvers á Bakka. Fyrir utan standi stórir þættir eins og Bjarnarflag, vegagerð og Höfn. Sameiginlega matið sé því ekki heildstætt.- kóp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×