Innlent

Ekkert bruðl í kveðjuveislu Evu Joly

Erla Hlynsdóttir skrifar
Fyrirhugað er að setja á laggirnar Stofnun Evu Joly
Fyrirhugað er að setja á laggirnar Stofnun Evu Joly Mynd/Daníel

„Þetta var ekkert bruðl. Ég pantaði bara ódýrasta pakkann," segir Jón Þórisson sem skipulagði kveðjuveislu Evu Joly í Norræna húsinu sem haldin var í gær. Jón hefur starfað náið með Evu og verið tengiliður hennar hér á landi.

„Það var boðið upp á hvítt, rautt og epladjús," segir hann. Auk þess fengu gestir að gæða sér á pinnamat. Um fimmtíu gestir heiðruðu Evu með nærveru sinni en Jón hafi boðið mörgum af þeim sem Eva hafði átt í samskiptum við hér á landi, jafnt embættismönnum sem bloggurum og aktívistum.

Jón segir að ekki hafi verið tekið saman hvað veislan kostaði en að Eva greiði fyrir hana sjálf úr eigin vasa. Hann segist hafa haft samband við Norræna húsið og beðið um hóflega veislu fyrir fimmtíu manns. „Kostnaðurinn er ekkert leyndarmál. Það er bara ekki búið að taka hann saman," segir Jón.

Jón hélt erindi í veislunni þar sem hann tilkynnti um fyrirhugaða Stofnun Evu Joly. Gert er ráð fyrir að hún verði sett á laggirnar upp úr áramótum. Stofnuninni er meðal annars ætlað að vinna að auknu lýðræði og réttlæti, auk þess sem hún mun stuðla að frjálsri og óháðri fjölmiðlun. Endanlegt form stofnunarinnar er þó ekki enn ljóst.

Aðsetur stofnunarinnar verður hér á landi og verður starf hennar til að byrja með aðallega tengt Íslandi. Þá verður einnig staðið fyrir ráðstefnum um endurbætur í efnahagsmálum og stöðu Íslands í hagrænu samhengi.

Stofnunin mun verða fjármögnuð að mestu með styrkjum sem fyrirhugað er að sækja um í Frakklandi og Noregi, sem og Íslandi. Sem kunnugt er býr Eva í Frakklandi en hún er fædd og uppalin í Noregi.

Eva fór frá Íslandi í morgun. Jón segist búast við að hún heimsæki Ísland um tvisvar á ári eftir að Stofnun Evu Joly verður sett á laggirnar og taki virkan þátt í starfi stofnunarinnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×