Innlent

Varar við hryllilegum kjörum

Það er bjarnargreiði að bjóða ungu fólki lán á svo slæmum kjörum, segir Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra.
Fréttablaðið/GVA
Það er bjarnargreiði að bjóða ungu fólki lán á svo slæmum kjörum, segir Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra. Fréttablaðið/GVA
Ekki er ljóst hvort efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur heimildir til að stöðva veitingu svokallaðra SMS-lána hér á landi. Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir ráðuneytið nú kanna hvort hægt sé að stöðva lánveitingarnar.

Neytendasamtökin sendu Gylfa erindi fyrir áramót þar sem varað var við lánunum, og óskað eftir því að komið yrði í veg fyrir frekari framgang þeirra hér á landi.

„Ég deili fyllilega áhyggjum Neytendasamtakanna og tel að þetta sé ekki jákvæð þróun," segir Gylfi. Hann vari fólk eindregið við því að taka lán á svo „hryllilegum" kjörum. Lánunum sé einkum beint að ungu fólki, sem hafi margt hvert komið sér í miklar skuldir í þenslunni. Verið sé að gera fólki mikinn bjarnargreiða með því að bjóða svo óhagstæð lán.

Hægt er að fá frá 10 til 40 þúsund krónur að láni í hvert skipti. Lántakandinn þarf að skrá sig á vefsíðu lánafyrirtækisins og sendir svo SMS til að fá lánið. Endurgreiða þarf lánið eftir fimmtán daga. Af 10 þúsund króna láni greiðist 2.500 króna kostnaður, sem jafngildir 600 prósent kostnaði á ársgrundvelli samkvæmt erindi Neytendasamtakanna.

Ekki náðist í forsvarsmann Kredia, sem býður upp á SMS-lánin á Íslandi, við vinnslu fréttar­innar. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×