Innlent

Áttatíu milljónir til veikra barna

Styrkjunum er meðal annars ætlað að efla þjónustu við langveik börn í heimabyggð.
Styrkjunum er meðal annars ætlað að efla þjónustu við langveik börn í heimabyggð.
Verkefnisstjórn félags- og tryggingamálaráðuneytis, mennta- og menningarmála­ráðu­­neytis, heilbrigðisráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur ákveðið að úthluta 80 milljónum króna til verkefna sem ætlað er að efla þjónustu í heimabyggð við langveik börn og börn með athyglisbrest og ofvirkni. Fjárhæðinni var úthlutað til fjölbreyttra verkefna um allt land.

Alls bárust áttatíu umsóknir frá þrjátíu sveitarfélögum, samtökum sveitarfélaga og skólaskrifstofum. Var sótt um rúmlega 287 milljónir króna. Við mat á umsóknum lagði verkefnisstjórnin áherslu á að úthlutun nýtist börnum og fjölskyldum þeirra sem best og að jafnframt sé stuðlað að samvinnu þeirra aðila sem að málaflokknum koma.

Langflestar umsóknir voru til verkefna sem varða þjónustu við börn með ofvirkni og athyglisbrest en umsóknir um verkefni sem mæta þörfum langveikra barna voru tiltölulega fáar. Öll verkefni sem tengjast langveikum börnum hljóta styrk. Verkefni vegna barna með ofvirkni og athyglisbrest fá hins vegar ekki öll úthlutun og yfirleitt aðeins hluta af þeirri fjárhæð sem sótt var um.- jss



Fleiri fréttir

Sjá meira


×