Innlent

Kvikan að færast í átt að Kötlu?

Mynd/ Anton.
Mynd/ Anton.

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur veltir upp þeim möguleika í grein á heimasíðu sinni að kvikan undir Eyjafjallajökli sé að færast til austurs í átt að Kötlu. Hann bendir á að jarðskjálftar hafi verið að færast undanfarna tvo daga í átt að Goðabungu í Mýrdalsjökli.

Haraldur segir í grein sinni á http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/:

"Undanfarna tvo daga hefur órói á mælum Veðurstofunnar í grennd við Fimmvörðuháls verið jafn en ef til vill í minna lagi. Hins vegar er það athyglisvert að á þessum tíma hafa jarðskjálftar legið mjög grunnt, flestir innan við 2 km dýpi, og þeir hafa verið að læðast austur á bóginn í áttina að Goðabungu. Það má sjá á meðfylgjandi korti Veðurstofunnar. Gæði staðsetninga á skjálftunum eru ágæt, samkvæmt upplýsingum Veðurstofu. Er þetta hugsanlega kvikuinnskot út frá jólatrénu af kvikufleygum sem nú eru undir Eyjafjallajökli, í áttina að Kötlu? Það er einnig mjög athyglisvert að fornir móbergshryggir og goshryggir á Fimmvörðuhálsi liggja í austur-vestur stefnu. Þetta virðist hafa verið yfirgnæfandi stefna á tektóník eða jarðskorpuhreyfingum."

Fyrr í dag kom fram að tveir jarðskjálftar urðu í Goðabungu í vestanverðum Mýrdalsjökli, sá fyrri varð laust fyrir klukkan tvö í nótt og sá síðari um hálfsjöleytið í morgun, og voru þeir báðir um 2,5 stig. Skjálftar hafa verið algengir í Goðabungu á haustin og segir Einar Kjartanssson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu, óvanalegt að sjá þá á þessum árstíma á þessum stað. Grannt er fylgst með þróun mála, en Goðabunga er ekki talin vera hluti af eldstöðinni Kötlu, og vill Einar fremur rekja skjálftana í Goðabungu til jarðhita.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×