Innlent

Dagvara hækkaði um 9% á einu ári

verslun Mikill samdráttur varð í veltu dagvöruverslunar í apríl síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra.
verslun Mikill samdráttur varð í veltu dagvöruverslunar í apríl síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra.

Velta í dagvöruverslun dróst saman um 11,7 prósent á föstu verðlagi í apríl miðað við sama mánuð í fyrra. Samdrátturinn nemur 3,5 prósentum á breytilegu verðlagi. Verð á dagvöru hækkaði um 9,3 prósent á síðastliðnum tólf mánuðum.

Þetta kemur fram í úttekt Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Sala áfengis dróst saman um 31 prósent í apríl miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og um 18,5 prósent á breytilegu verðlagi. Verð á áfengi hækkaði um 18,1 prósent á milli ára.

Fataverslun var 13,8 prósentum minni í apríl miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og hækkaði verð á fötum um 11,1 prósent milli ára.

Velta húsgagnaverslana var 12,1 prósenti minni í apríl en í sama mánuði í fyrra.

Velta sérverslana með rúm minnkaði um 52,6 prósent frá því í fyrra. Verð á húsgögnum var 9,3 prósentum hærra í apríl síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra.

Sala á raftækjum minnkaði um 13,3 prósent á föstu verðlagi og hækkaði verðið um 8,6 prósent frá apríl 2009.

Í tilkynningu frá Rannsóknarsetrinu segir að óvenjumikill samdráttur hafi orðið í verslun í apríl í ár miðað við sama tíma í fyrra. Ástæðuna megi að hluta til rekja til þess að páskaverslunin fór fram í mars í ár en í apríl í fyrra. Sú staðreynd skýri þó ekki alfarið þennan mikla mun. Samdrátturinn sé nokkuð óvæntur ef miðað er við þróunina fyrstu þrjá mánuði ársins.

- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×