Íslenski boltinn

Rúnar: Tel mig alveg vera tilbúinn að klára þetta tímabil fyrir félagið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Kristinsson, nýráðinn þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson, nýráðinn þjálfari KR. Mynd/Valli
Rúnar Kristinsson, nýráðinn þjálfari KR, var með það í samningi sínum sem yfirmaður knattspyrnumála að taka við KR-liðinu ef að þjálfari liðsins myndi hætta eða væri sagt upp.

„Ég er með ákveðið starf hér í félaginu sem yfirmaður knattspyrnumála og það er í starfslýsingunni minni að ef sú staða kæmi upp, að þjálfari yrði sagt upp störfum eða að hann myndi hætta, þá myndi ég

taka við liðinu tímabundið. Það er sú staða sem er komin upp núna og ég ætla ekki að skorast undan þeirri ábyrgð sem ég skrifaði undir á sínum tíma," segir Rúnar Kristinsson.

„Ég tel mig alveg vera tilbúinn að klára þetta tímabil fyrir félagið og hef Pétur Pétursson áfram með mér í þessu. Við vinnum þetta saman. Ég er búinn að vinna náið með Loga hingað til og ég þekki þennan hóp mjög vel og vinna mjög náið með þeim. Ég á stóran hlut í þessu líka eins og Logi þótt að Logi hafi stjórnað öllu í þjálfuninni," sagði Rúnar.

„Við settumst niður saman í morgun, ég, Logi, formaður félagsins, formaður meistaraflokksráðs og framkvæmdastjóri félagsins og ræddum stöðuna. Það var sameiginleg ákvörðun að menn væru ekkert sáttir. Logi var ekki ánægður með árangur liðsins og hann hefur sjálfur metnað og setur kröfur á sjálfan sig að gera betur. Sama má segja um okkur," segir Rúnar.

„Við skuldum Loga miklar þakkir því hann er búinn að vinna frábært starf fyrir KR. Við erum virkilega ánægð með hans störf. Hann er búinn að færa félaginu bikarmeistaratitil, Reykjavíkurmeistaratitla, deildarbikarmeistaratitil og hefur komið okkur í Evrópukeppnina ár eftir ár. Hann er sá þjálfari í KR sem hefur starfað hvað lengst síðustu áratugina," segir Rúnar en Logi tók við liðinu um mitt ár 2007.

„Logi skilur eftir sig mjög gott bú og góða leikmenn í fínu standi. Það þarf að skerpa á einhverjum hlutum og bæta leik liðsins og ná liðinu aftur á það plan í vetur þegar það lék hvað best," segir Rúnar.

„Það eru alltaf einhverjar áherslubreytingar gerðar með nýjum þjálfara en við förum hægt í það og skoðum rólega. Við erum að fara í Evrópuleik úti á fimmtudaginn og þá munum við skoða hópinn og hvernig við spilum úr þessu. Við förum hægt í sakirnar. Ég þekki samt strákana inn og út og þeir þekkja mig," segir Rúnar.

„Ég held að þetta verði ekkert vandamál. Pétur er mér til aðstoðar og mun stjórna þessu með mér. Við þekkjum þennan leikmannahóp mjög vel og þetta er bara spurning um hvort við náum að stilla saman strengi liðsins aftur og fá alla til að vinna saman í rétta átt og að einu settu markmiði," sagði Rúnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×