Ögmundur Jónasson þingmaður VG segir almennar launafrystingar ekki koma til greina. Lausnarorðið að hans mati er kjarajöfnun. Fréttablaðið segir frá því í dag að á meðal tillagna ráðuneytanna að fjárlögum næsta árs sé að frysta laun opinberra starfsmanna í eitt ár. Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, hafði áður viðrað þá hugmynd að frysta laun þessara starfsmanna fram til árisins 2013.
„Það verður að skoða þetta í því samhengi að það er gríðarlegur niðurskurður hjá hinu opinbera og félagsmálaráðherra er ábyrgur fyrir þeim málaflokkum sem að mörgu leiti eru viðkvæmastir," segir Ögmundur. „Tekjur þeirra sem þurfa að reiða sig á almannatryggingar ráðast af ákvörðunum fjárveitingavaldsins. Síðan er verið að horfa til þess að ef ráðist verður í mikinn niðurskurð þá missir fjöldi fólks vinnuna innan velferðarþjónustunnar. Það er í þessu samhengi sem verið er að tala um hve mikla fjármuni eigi að láta renna í launakostnað."
„Ég hef hinsvegar sagt að mér finnist almenn frysting launa ekki koma til greina," segir Ögmundur. „Sumir, þeir sem hafa mikið handa á milli kunna að þola frostið en aðra þarf að afþíða."
Lausnarorðið er að dómi Ögmunds kjarajöfnun. „Ég er einfaldlega að vekja athygli á því að við erum í umræðu sem er í samhengi niðurskurðar og hið pólitíska verkefni er að standa rétt að forgangsröðun og verja velferðarkerfið. Um það snýst þessi umræða og það þarf að skoða hana í því ljósi."