Innlent

Smíðaði hring handa Ono og eignaðist son

Sigurður Ingi Bjarnason og Kolbrún Róberts listmálari með fjórða soninn sem fæddist á miklum annríkisdegi um síðustu helgi. Fréttablaðið/GVA
Sigurður Ingi Bjarnason og Kolbrún Róberts listmálari með fjórða soninn sem fæddist á miklum annríkisdegi um síðustu helgi. Fréttablaðið/GVA
„Ég setti Fimmvörðuhálshraun í hringinn til að hafa hluta af nýja Íslandi í honum,“ segir Sigurður Ingi Bjarnason, gullsmiður og skartgripahönnuður í Sign í Hafnarfirði, sem sérsmíðaði afmælisgjöf fyrir Sean Ono Lennon samkvæmt pöntun Yoko Ono um síðustu helgi.

Á laugardaginn var, 9. október, sem er sameiginlegur afmælisdagur feðganna Johns og Seans Lennon, fékk Sigurður Ingi símhringingu. „Yoko Ono vantaði hring fyrir son sinn og ég var beðinn að koma. Ég hitti hana uppi á hóteli og teiknaði hring fyrir hana og smíðaði hann síðan á tveimur klukkutímum,“ segir Sigurður Ingi, sem kveður ansi mikið líf og fjör hafa verið í tuskunum þennan dag, bæði hjá Yoko og honum sjálfum.

Fljótlega eftir að Sigurður Ingi var búinn að skila hringum til Yoko fór hann upp á fæðingardeild til Kolbrúnar Róberts konu sinnar. Þar fæddist þeim hjónum fjórði sonurinn um kvöldmatarleytið. „Þetta var mikill dagur hjá henni og stór dagur hjá mér líka,“ segir hann.

Sigurður Ingi selur silfurskartgripi úr vörulínunni Piece of Iceland á Hilton hótelinu í Reykjavík þar sem Yoko dvelur gjarnan. Hann segir Yoko hafa gert sér margar ferðir til að skoða og kaupa.

„Hún var mjög hrifin og lét ekki duga að kaupa nokkur stykki heldur tæmdi skápinn,“ segir Siguður Ingi, ánægður með að hin heimsfræga listakona kunni svo vel að meta verk hans. Hún hafi svo sem sagst áður hafa séð áþekka hönnun þar sem hraun sé notað en ekki eins skemmtilega og hans. Hlutirnir hafi gengið hratt og vel fyrir sig á fundi þeirra á Hilton hótelinu í hádeginu á laugardag.

„Yoko vildi ekki mikið vesen og var að vonast til að geta fengið eitthvað sem ég ætti en ég sagði henni að ég vildi gera eitthvað sérstakt og hún féllst á það. Það var mjög gaman og mikill heiður að fá að smíða fyrir hana,“ segir Sigurður, sem ber Yoko vel söguna. Hún hafi verið laus við allan hroka og stjörnustæla.

„Yoko er kurteis kona með þægilega nærveru. Ég upplifði hana þannig að hún vildi ekki láta hafa mikið fyrir sér. Það var mikið að gera hjá henni og hún var afar hnitmiðuð í því sem hún bað um. Ég vona bara að hringurinn hafi fallið í góðan jarðveg,“ segir Sigurður Ingi Bjarnason.

gar@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×