Enski boltinn

Fulham biður um fleiri miða á úrslitaleikinn - allt seldist upp á 4 tímum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það var nú ekki svona rólegt í miðasölunni fyrir úrslitaleikinn í Evrópukeppninni.
Það var nú ekki svona rólegt í miðasölunni fyrir úrslitaleikinn í Evrópukeppninni. Mynd/AFP

Fulham hefur biðlað til UEFA um að fá fleiri miða á úrslitaleik liðsins á móti Atletico Madrid í Evrópudeildinni en gríðarlegur áhugi er á leiknum meðal stuðningsmanna félagsins.

Úrslitaleikurinn fer fram í Hamburg 12. maí næstkomandi. Það er búist við að minnsta kosti 20 þúsund stuðningsmönnum Fulham á leikinn en þeir gátu ekki nærri því allir keypt miða í forsölu.

Fulham fékk fyrst 12 650 miða á leikinn í HSH Nordbank Arena en þeir seldust upp á aðeins fjórum tímum.

Fulham er með tíu þúsund ársmiðahafa og hver og einn átti möguleika á að kaupa fjóra miða. Það þýddi að voru engir miðar eftir fyrir þá stuðningsmenn sem eru ekki með ársmiða.

Atletico Madrid fékk jafn mikinn fjölda af miðum og Fulham en 14 þúsund miðar fóru síðan í almenna sölu. 4600 miðar fara síðan til þeirra sem halda leikinn og þá fá aðildarlönd UEFA aðgengi að 6100 miðum. Völlurinn tekur alls 49 þúsund manns í sæti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×