Innlent

Göngudeild SÁÁ á Akureyri lokað í vor

Hjá SÁÁ hefur verið tekin ákvörðun um að standa vörð um starfsemi á Vogi og í eftirmeðferðarstöðvum, en skera niður annars staðar í starfseminni, svo sem á unglingadeild og á göngudeildum.  Fréttablaðið/Heiða
Hjá SÁÁ hefur verið tekin ákvörðun um að standa vörð um starfsemi á Vogi og í eftirmeðferðarstöðvum, en skera niður annars staðar í starfseminni, svo sem á unglingadeild og á göngudeildum. Fréttablaðið/Heiða
Göngudeild SÁÁ á Akureyri verður lokað í vor samkvæmt ákvörðun framkvæmdastjórnar SÁÁ. Ákvörðunin er liður í sparnaði hjá meðferðarsamtökunum í kjölfar niðurskurðar á framlögum ríkisins til sjúkrareksturs SÁÁ.

Þegar fjárlög ríkisins voru samþykkt rétt fyrir áramót varð ljóst að framlag ríkisins til SÁÁ myndi minnka um 13 prósent á tveimur árum. Samkvæmt upplýsingum SÁÁ kallaði ákvörðunin á sparnað upp á 70 milljónir króna á þessu ári.

„Við lentum í þessum flata niður­skurði hjá ríkinu og náum ekki endum saman. Það verður því lokað hér í vor og búið að draga saman víðar í starfseminni, meðal annars segja upp fólki," segir Anna Hildur Guðmundsdóttir, dagskrárstjóri göngudeildar SÁÁ á Akureyri. Hún lætur af störfum 1. júní næstkomandi.

„Okkur vantar bara þessar 70 til 100 milljónir," segir Anna Hildur, en innan samtakanna var tekin ákvörðun um að standa vörð um brýnustu starfsemina sem fram fari á Vogi og í eftirmeðferðarstöðvum SÁÁ.

Anna Hildur segir fátt virðast geta komið í veg fyrir lokanir og niðurskurð hjá SÁÁ. Reykjavíkurborg sé eina sveitarfélagið sem viljað hafi gera þjónustusamning við samtökin þótt eftir því hafi verið leitað. Um leið segir hún ljóst að lokun og samdráttur í starfsemi SÁÁ komi til með að þýða aukin útgjöld og álag á aðra þætti velferðarþjónustu. „Vandamálin hverfa ekki við að lokað sé hér," segir hún. „Þau brjótast fram annars staðar í kerfinu."

Um 2.000 manns hafa árlega sótt þjónustu til göngudeildarinnar á Akureyri, en hún hefur að sögn Önnu Hildar verið starfrækt í 20 ár. Meðal starfsemi sem þar hefur verið sinnt er eftirfylgni fyrir konur sem lokið hafa kvennameðferð, eftirfylgni fyrir karla sem sótt hafa svokallaða „víkingameðferð" á Staðarfelli, alla virka daga séu fundir, stuðninghópar, aðstandendum áfengissjúkra standi til boða aðstoð og síðan sé viðtölum og forvarnarstarfi sinnt.

„Það horfir því ekki vel fyrir landsfjórðunginn," segir Anna Hildur og bendir á að fleiri en Akureyringar einir hafi sótt þjónustu á göngudeildina. „Fólk kemur keyrandi í viðtöl frá Ólafsfirði og Siglufirði, Húsavík og Sauðárkróki. Það fer enginn að eyða 30 þúsund kalli til að hoppa upp í flugvél til að fara í viðtal í Reykjavík."

olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×