Fótbolti

Elsti HM-hópur Englendinga í sögunni - meðalaldur liðsins 28,7 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David James er 39 ára gamall og dregur upp meðalaldur enska liðsins.
David James er 39 ára gamall og dregur upp meðalaldur enska liðsins. Mynd/GettyImages
Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englendinga, setti nýtt met þegar hann tilkynnti 23 manna HM-hópinn sinn í gær  því þetta er elsti HM-hópur Englendinga í sögunni. Capello tryggði sér metið með því að velja hinn 28 ára gamla Shaun Wright-Phillips yfir hinn 21 árs Theo Walcott. Þetta kom fram á Guardian.

Meðalaldur enska hópsins á HM í Suður-Afríku er 28,7 ár og bætir þar með metið frá HM 1954 þegar meðalaldur enska hópsins var 28,4 ár. Meðalaldur liðsins hækkar um nærri þrjú og hálft ár frá því á HM í Þýskalandi fyrir fjórum árum síðan. Þegar Englendingar urðu heimsmeistarar í fyrsta og eina skiptið 1966 þá var meðalaldur hópsins 26,5 ár.

Enski hópurinn hefur einnig aldrei verið reyndari á HM en leikmenn HM-hópsins hafa leikið samtals 900 landsleiki eða 39,1 að meðaltali. Gamla metið þar var frá því á HM á ítalíu 1990 þegar hópurinn hafði leikið 32,2 landsleiki að meðaltali fyrir keppnina.

Í samantekt Guardian er einnig bent á það meðalaldur heimsmeistaraliðs Ítala fyrir fjórum árum var 29,0 ár og meðalaldur Inter-liðsins sem vann Meistaradeildina á dögunum var 29,7 ár. Það er því að þeirra mati ekkert alltof slæmt að tefla fram reyndu og gömlu liði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×