Fótbolti

Eto’o: Hótaði að hætta í síðustu viku og fékk rauða spjaldið í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það dugði ekkert fyrir Samuel Eto’o að deila við dómarann.
Það dugði ekkert fyrir Samuel Eto’o að deila við dómarann. Mynd/AFP
Samuel Eto'o, fyrirliði Kamerúna, virðist ekki alveg vera í nægilega góðu andlegu jafnvægi á lokasprettinum fyrir HM í Suður-Afríku. Eto'o hótaði því að hætta í síðustu viku þegar hann var gagnrýndur fyrir frammistöðu sína með landsliðinu og í gær var hann sendur snemma í sturtu í æfingalandsleik á móti Portúgal.

Samuel Eto'o þoldi það illa þegar Roger Milla gagnrýndi hann á dögunum og lét það frá sér að hann væri að íhuga það að gefa ekki kost á sér í landsliðið á HM. Milla þótti Eto'o ekki spila eins vel fyrir landsliðið sitt og fyrir félagsliðin sín en hann hefur unnið þrefalt tvö síðustu tímabil með Barcelona (2008-09) og Internazionale Milan (2009-10).

Eto'o stóð ekki við hótun sína og var mættur í slaginn í vináttulandsleik á móti Cristiano Ronaldo og félögum í Portúgal. Eto'o fékk hinsvegar rauða spjaldið strax á 33. mínútu eða aðeins mínútu eftir að Portúgalar komust í 1-0. Eto'o fékk þá sitt annað gula spjald fyrir slæma tæklingu á Duda. Portúgal vann síðan leikinn 3-1.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×