Íslenski boltinn

Hörður: Þungt að kyngja þessu

Kristinn Páll Teitsson skrifar
„Þetta er þungt, við vorum með leikinn í okkar höndum allan tímann og þeir voru ekkert að skapa sér nein færi. Þeir bjarga nokkrum sinnum á línu og því er þungt að kyngja þessu," sagði Hörður Sveinsson markaskorari Keflvíkinga eftir 2-2 jafntefli gegn Stjörnunni í kvöld.

„Fyrsta markið lyftir okkur upp en þeir ná snögglega að jafna og við þurfum að laga það, við þurfum núna að byggja ofan af því góða sem við vorum að gera og reyna að halda áfram með það. Seinna markið var heppnismark frá þeim alveg eins og við vorum óheppnir að bæta ekki við."

Keflvíkingar lokuðu vel á miðjuspil Stjörnumanna og náðu að stöðva hraðann sóknarleik þeirra sem hefur einkennt leiki þeirra þetta sumar.

„Við vorum að spila mjög vel, það voru allir að berjast fyrir hvorn annan og því miður fáum við aðeins eitt stig út úr þessu. Í flestum tilvikum dugar að skora tvö mörk í leik en það gerðist ekki hér í dag."

Með þessu fara bæði liðin í 24 stig en Hörður vill þó ekki útiloka að Keflavík blandi sér í baráttu um Evrópusæti.

„Eins og deildin er að spilast geta allir unnið alla, við verðum þó að passa okkur að það er líka stutt niður í hinn endann" sagði Hörður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×