Innlent

Annasöm páskahelgi á Akranesi

Nokkuð var um ölvun og róstur um páskahelgina á Akranesi og þurfti lögregla nokkrum sinnum að grípa inn í. Einn fékk hnefahögg í andlitið á skemmtistað með þeim afleiðingum að framtönn brotnaði og annar var marinn og blár eftir að gengið var í skrokk á honum fyrir utan skemmtistað.

Í báðum tilfellum er vitað hverjir áttu hlut að máli. Í þriðja tilfellinu kom lögregla manni til aðstoðar á skemmtistað. Sá þorði ekki út og kvaðst eiga von á því að verða tekinn í karphúsið þegar út kæmi. Lögregla kom honum heim.

Lögregla var kölluð í heimahús um helgina vegna ágreinings milli heimilisfólks. Stillt var til friðar og að því loknu var aðili færður til yfirheyrslu. Lögregla kom nefnilega auga á poka með ætluðu marihuana inni í íbúðinni sem að sjálfsögðu var lagt hald á.

Brotist var inn í atvinnuhúsnæði við Smiðjuvelli. Talsvert hafði verið rótað í húsnæðinu og ýmsum varningi pakkað saman og borinn út. Hluta af varningnum hafði verið komið fyrir inni í sendibifreið sem þarna stóð og hluti hans var á víð og dreif fyrir utan húsnæðið.

Eigandi húsnæðisins átti erfitt með að átta sig á hversu miklu hafði raunverulega verið stolið og kemur það væntanlega í ljós þegar búið verður að ganga frá eftir þessa óboðnu gesti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×