Innlent

Vill að Sjálfstæðismenn taki skýrsluna alvarlega

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins vill að flokksmenn sínir taki niðurstöðum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis alvarlega og dragi lærdóm af þeim. Þetta kemur fram í ávarpi Bjarna á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins.

Í ávarpinu segir Bjarni m.a.: „Nefndin var sett á laggirnar haustið 2008 að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins og með stuðningi formanna allra flokka, en engin fordæmi eru í þingsögunni fyrir sambærilegu rannsóknarstarfi. Mikilvægt er að niðurstöður nefndarinnar nýtist þjóðinni við uppgjör á því sem úrskeiðis fór í aðdraganda bankahrunsins og ekki síður við þá endurreisn sem framundan er.

Þjóðin á að sameinast um að draga lærdóm af skýrslunni eftir því sem kostur er og nýta niðurstöður hennar á uppbyggilegan hátt, svo tryggt verði að sagan endurtaki sig ekki. Vafalaust verða skiptar skoðanir um einstaka efnisþætti og niðurstöður en ég vona engu að síður að skýrslan geti orðið til þess að leiða til þeirrar sáttar sem nauðsynleg er í samfélaginu og að hún geti markað upphaf endurreisnar lífsgæða í landinu.

Ég skora á trúnaðarmenn flokksins að kynna sér efni skýrslunnar og taka virkan þátt í umræðum um niðurstöður hennar. Í því sambandi vil ég leggja sérstaka áherslu á eftirfarandi atriði:

1. Að við tökum niðurstöður skýrslunnar alvarlega, drögum lærdóm af þeim og nýtum þær á uppbyggilegan hátt í umræðunni sem framundan er.

2. Að við metum niðurstöður skýrslunnar með yfirveguðum hætti og vörumst dómhörku og sleggjudóma gagnvart þeim sem þær varða.

3. Að við gerum okkur og öðrum grein fyrir því að skýrslan veitir okkur í senn tækifæri til og leggur okkur skyldur á herðar um, að ná sátt í samfélaginu og hefja í kjölfarið uppbyggingu á nýjum grunni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×