Enski boltinn

Torres og Gerrard ekki til sölu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Roy Hodgson, stjóri Liverpool, er farinn að láta til sín taka og hefur nú lýst því yfir að hvorki Fernando Torres né Steven Gerrard séu til sölu.

Margir áttu von á því að Torres myndi biðja um sölu er hann kæmi til baka úr sumarfríi en af því virðist ekki ætla að vera.

"Ég er búinn að hitta Fernando. Hann er afar geðugur maður og við áttum gott spjall. Hvað okkur snertir þá er hann leikmaður Liverpool og við viljum halda því þannig. Hann er ekki til sölu og við viljum ekki sjá nein tilboð í hann," sagði Hodgson en hann segir Gerrard ekki heldur vera til sölu.

"Ég er líka búinn að hitta Steven og við áttum jákvætt spjall. Maður heyrir ýmislegt í blöðunum um þá en það eru bara orðrómar. Steven Gerrard er ekki til sölu og ég er búinn að segja honum það. Við ætlum að byggja liðið í kringum þessa leikmenn."

Svo er spurning hvort forráðamenn Chelsea hlusti á þetta en félagið er að undirbúa tilboð í Torres. Chelsea er tilbúið að greiða Liverpool einar 30 milljónir punda á borðið fyrir leikmanninn. Ástæðan er hversu oft leikmaðurinn er meiddur.

Torres er metinn á 50 milljónir punda en Chelsea er ekki til í að greiða aukamillurnar 20 fyrr en Torres hefur náð ákveðnum leikjafjölda. Forráðamenn Chelsea telja allt of áhættusamt að greiða beint 50 milljónir fyrir mann sem hefur verið eins mikið meiddur og Torres.

Hermt var að viðræður milli félaganna væru hafnar og hafi í raun hafist áður en Torres meiddist í úrslitaleik HM.  Spurning hvort Hodgson hafi vitað af því?

Torres var mikið meiddur síðasta vetur og það leyndi sér ekki á HM að hann skorti leikæfingu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×