Innlent

Ráðherra segir ekkert að óttast

Ragna Árnadóttir
Ragna Árnadóttir

Engin ástæða er til að ætla annað en að lögreglumenn uppfylli skyldur sínar með prýði hér eftir sem hingað til, segir Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra.

Hún var spurð um orð Snorra Magnússonar, formanns Landssambands lögreglumanna, sem sagði á föstudag í fréttum Útvarps að hann efaðist um að margir lögreglumenn gæfu kost á sér í að verja „dauða hluti", ef kæmi til mótmæla að útgefinni skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Snorri óttast „aðgerðaleysi stjórnvalda" komi til átaka og tengdi þetta við lausa kjarasamninga.

Spurð um hvort búast megi við lítilli löggæslu eftir helgi og hvort það væri þá ríkisstjórninni að kenna, bendir Ragna á að Snorri hafi ítrekað í fréttinni að lögreglumenn stæðu við sitt.

„Ég hafði samband við ríkislögreglustjóra í tilefni fréttarinnar og sannreyndi að það stæði ekkert upp á dómsmálaráðuneyti eða lögreglulið hvað löggæslu varðar," segir ráðherrann í skeyti.

Stefán Eiríksson lögreglustjóri vill ekki ræða ummæli Snorra. Snorri verði að bera ábyrgð á þeim sjálfur. - kóþ






Fleiri fréttir

Sjá meira


×