Lífið

Lone Ranger aftur af stað

Johnny Depp mun leika Tonto í Lone Ranger en Gore Verbinski mun að öllum líkindum leikstýra myndinni.
Johnny Depp mun leika Tonto í Lone Ranger en Gore Verbinski mun að öllum líkindum leikstýra myndinni.

Eftir mikið volk í ólgusjó Hollywood er kvikmynd um Lone Ranger, grímuklædda kúrekann í villta vestrinu, og hestinn hans Silver loksins að verða að veruleika. Disney-fyrirtækið, í samstarfi við stórmyndakanónuna Jerry Bruckheimer, ætlar að framleiða kvikmynd um þessa frægustu persónu George W. Trendle sem varð feikilega vinsæl í amerísku útvarpi og sjónvarpi. Sjóræningjaleikstjórinn Gore Verbinski hefur verið ráðinn í leikstjórastólinn og Johnny Depp mun að öllum líkindum leika ráðagóða indíánann Tonto.

Ekki er hins vegar vitað hver fær að klæðast hinum íðilfagra bláa búningi, setja á sig hvíta hattinn og svörtu grímuna sem breyttu hinum dagsfarsprúða John Reid í kúrekahetjuna. Það var kvikmyndavefurinn thewrap.com sem greindi fyrstur frá því að gera ætti kvikmyndina undir merkjum Disney en það hefur lengi staðið til. Columbia-kvikmyndaverið tilkynnti árið 2002 að það ætlaði að gera kvikmynd en fimm árum seinna reyndu Weinstein-bræðurnir að kaupa kvikmyndaréttinn enda hafði lítið gerst. Það var síðan Bruckheimer sem greip gæsina þegar hún gafst en hann hefur yfirleitt haft gott nef fyrir góðum gróða.

Verbinski er nú upptekinn við tökur á fjórðu sjóræningjamyndinni með Johnny Depp og er fastlega gert ráð fyrir því að hann hefji undirbúning við kúrekamyndina strax eftir hana. - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.