Rafael Nadal tryggði sér í gær sæti í úrslitum einliðaleiks karla á Wimbledon-mótinu í tennis eftir sigur á Andy Murray í undanúrslitum.
Það var fyrir 72 árum síðan að Breti komst síðast í úrslit á Wimbledon-mótinu og vonuðust margir til þess að Murray myndi binda enda á þessa bið í ár.
Nadal reyndist hins vegar of sterkur fyrir Murray að þessu sinni. Hann vann í þremur settum, 6-4, 7-6 og 6-4.
Nadal mætir Tékkanum Tomas Berdych í úrslitum en hann bar sigurorð af Novak Djokovic frá Serbíu í sinni undanúrslitaviðureign, 6-3, 7-6 og 6-3.
Berdych er í þrettánda sæti heimslistans en hefur slegið í gegn á mótinu. Í fjórðungsúrslitum sló hann Roger Federer úr leik.
Nadal er í efsta sæti heimslistans sem síðast var gefinn út þann 21. júní. Federer er í öðru sæti, Djokovic þriðja og Murray fjórða.
Í dag fer fram úrslitaviðureignin í einliðaleik kvenna. Þar mætast Serena Williams frá Bandaríkjunum og Rússinn Vera Zvonareva.
Williams hefur fjórum sinnum fagnað sigri á Wimbledon-mótinu í tennis og á alls tólf stórmótum á ferlinum. Zvonareva er hins vegar í úrslitum stórmóts í fyrsta sinn.

