Íslenski boltinn

Má eiginlega segja að ferlinum sé formlega lokið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Fréttablaðið/Stefán
Sú saga fór af stað um daginn að Guðmundur Benediktsson, þjálfari Selfoss, væri búinn að rífa fram skóna og ætlaði sér að spila með Selfyssingum. Hann segir það ekki vera rétt.

„Þessi saga á ekki við rök að styðjast. Ég reyndar tók þátt í lok einnar æfingar um daginn og það er allt og sumt. Það stendur ekki til að ég fari að spila fótbolta á nýjan leik," sagði Guðmundur sem viðurkennir þó að það kitli alltaf að spila fótbolta.

„Sá fiðringur fer seint. Lappirnar á mér leyfa ekki að ég spili mikinn fótbolta," sagði Guðmundur en má þá slá því föstu að knattspyrnuferli hans sé formlega lokið?

„Það má eiginlega segja það. Þótt fyrr hefði verið hefðu einhverjir líklegast sagt," sagði Guðmundur léttur og bætti við: „Annars á maður aldrei að segja aldrei. Fyrir tíu árum hélt ég að þetta væri búið. Kannski spila ég fótbolta næsta sumar. Maður veit aldrei."

Eftir góða byrjun á Íslandsmótinu hefur hallað verulega undan fæti hjá Selfyssingum og því töldu margir líklegt að hann myndi reyna að spila. Liðið þyrfti á hans kröftum að halda innan vallar sem utan. Selfyssingar verða að láta sér nægja þjálfarakrafta hans að þessu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×