Innlent

Vingast við unglingsdrengi í nafni Sveppa

Valur Grettisson skrifar
Enginn veit hver stendur á bak við fölsku Sveppa-síðuna. En hitt er ljóst - það er ekki Sveppi sjálfur.
Enginn veit hver stendur á bak við fölsku Sveppa-síðuna. En hitt er ljóst - það er ekki Sveppi sjálfur.

„Ég kannast ekki við þessa síðu," segir Sverrir Þór Sverrisson, betur þekktur sem Sveppi, en svo virðist sem óprúttin aðili fari nú um Facebook í nafni Sverris og biðji unga drengi um að verða vinir sínir.

Það var áhyggjufull móðir sem benti Vísi á síðuna. Athygli vekur að síðan er í nafni Sverris, en eftirnafnið er skrifað vitlaust. Sá sem stjórnar síðunni á um 50 vini sem eru nær allt unglingspiltar.

Móðirin sem hafði samband við Vísi sagði viðkomandi hafa óskað eftir því að verða vinur sonar hennar sem er 11 ára gamall. Móðirin grennslaðist fyrir um síðuna og þótti hún sérkennileg og lét vita af henni í kjölfarið.

Sveppi er væntanlega auðveldur skotspónn þegar kemur að Facebook enda auðvelt að ná í myndir af honum auk þess sem hann er gríðarlega vinsæll á meðal yngri kynslóðarinnar.

Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn segir lögregluembættið af og til fá tilkynningar um vafasamar síður á Facebook. Hann segir ekkert þeirra mála sem hafa komið inn á þeirra borð hafi orðið að sakamáli.

„Yfirleitt er fundið þá sem standa á bak við síðurnar sem eru tilkynntar. Svo er rætt við viðkomandi og málin leyst í kjölfarið," segir Friðrik sem hafði ekki heyrt af Facebook-síðunni í nafni Sveppa.

Vísir ræddi við Sveppa sem sagðist áhyggjufullur yfir málinu en sjálfur er hann með síðu undir eigin nafni á Facebook. Hann segist hafa stofnað hana fyrir löngu síðan. Hann segir síðuna hvorki opinbera né óopinbera. Hér má skoða raunverulega síðuna hans Sveppa og svo er falska síðan hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×