Innlent

70 þúsund lentu í rafmagnsleysi

Áætla má að um 70 þúsund íbúar landsbyggðarinnar, allt frá Vesturlandi og norður til Austfjarða, hafi mátt þola rafmagnsleysi í allt að tvær klukkustundir í gærkvöldi. Bilunin var það víðtæk að Almannavarnir og Fjarskiptamiðstöð lögreglu sáu ástæðu til að koma að málum.

Rafmagnið sló út klukkan 20.51 í gærkvöldi, og varð þá rafmagnslaust á stórum hluta Íslands, allt frá Hvalfirði og austur til Djúpavogs. Aðeins suðvesturhornið og sunnanvert landið austur til Hornafjarðar sluppu, sem og Húsavík og aðrir tengdir Laxárvirkjun. Þá voru Vestfirðir fljótir að komast inn aftur.

Á Akureyri var rafmagnslaust í um tvær klukkustundir og þar stöðvuðust bíósýningar í báðum kvikmyndahúsum bæjarins. Símasamband sló víða út sem og útvarpssendar og var mikið álag á Neyðarlínunni og raforkufyrirtækjunum þegar fólk leitaði skýringa. Hjá Landsneti eru menn enn að kanna hvað gerðist, og segja að farið hafi af stað keðjuverkandi útleysing á byggðalínukerfinu.

Þórhallur Hrafnsson, starfsmaður Landsnets, segir erfitt að benda á einhvern einn orsakaþátt en segir að svo virðist sem rekja megi upphafið til truflunar í tengivirki á Brennimel í Hvalfirði. Rafmagn var almennt komið á aftur um ellefuleytið í gærkvöldi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×