Innlent

Stóraukin framlög þarf til tækjakaupa

Fyrrverandi yfirlæknir hjartadeildar telur að tækjamál Landspítalans séu helsti veikleiki hans. Mörg stærri lækningatæki hefa hærri meðalaldur en ásættanlegt getur talist. Sambærilegar stofnanir á Norðurlöndunum eru margfalt betur settar, og vart hægt að bera saman íslenskan raunveruleika í því samhengi.

Björn Zoëga, forstjóri LSH, og Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga, hafa lýst áhyggjum af því að fjárveitingar hafa ekki fengist frá ríkinu til eðlilegrar endurnýjunar á tækjabúnaði spítalans. Kallað er eftir skilningi fjárveitingavaldsins svo halda megi uppi því þjónustustigi sem Íslendingar telja ásættanlegt. Björn orðar það svo að spítalinn sé kominn í gjaldþrot hvað varðar tækjakaup.



Lækningatæki á LandspítalaAð ósk Fréttablaðsins vann Landspítalinn samantekt um lækningatæki á spítalanum og hvernig fjárveitingar til tækjakaupa hafa þróast á undanförnum fimmtán árum. Samantektin sýnir hversu umfang starfseminnar er mikil og við hvað er að eiga þegar harðnar á dalnum í efnahagslegu tilliti.

Skráð lækningatæki í notkun á Landspítala eru nú um 11.930 talsins. Heildarendurnýjunarverð þeirra er um átta milljarðar, en heildarkaupverð er 4,9 milljarðar. Ódýrustu tækin kosta frá einhverjum þúsundum eða tugþúsundum króna en þau dýrustu yfir 300 milljónir króna. Meðalaldur tækjanna í dag er rúm átta ár. Mörg tæki eru á viðunandi aldri en mörg stærri tæki eru með hærri meðalaldur.

Tækjakaup og framlög á fjárlögumFramlag til kaupa á lækningatækjum fyrir Landspítala hafa lækkað umtalsvert í krónutölu frá sameiningu LSH og Sjúkrahúss Reykjavíkur (Borgarspítala) árið 2000 til dagsins í dag. Eftir sameiningu var ljóst að umtalsverða fjármuni þurfti til bæði nýkaupa og endurnýjunar á lækningatækjum. Framkvæmdastjórn og forstjóri LSH töldu á þeim tíma að það væri forgangsmál að fá meira fjármagn til þessara þátta og yrði leitað eftir því á næstu árum. Það gekk hins vegar ekki eftir og greiðslur fyrir leigu á tækjum, sem gripið var til í neyð, hafa síðan tekið æ stærri hluta af fjárveitingu hvers árs. Því er búið að ráðstafa hluta af fjárframlagi til tækjakaupa til ársins 2014 og vegna gengishrunsins fer öll fjárveiting þessa árs og næsta árs til greiðslu leigusamninga.

Spítalinn hefur vegna þessa ekki haft fjárveitingu fyrir kaupum á stærri tækjum í nokkur ár og árið 2009 voru eingöngu keypt tæki sem bráðakaup fyrir um 25 milljónir króna en forgangsraðaðar beiðnir innan sjúkrahússins voru um 450 milljónir króna.

Fjárveiting og endurnýjun lækninga­tækjaFjöldi lækningatækja í notkun kallar á endurnýjun í einhverjum mæli á hverju ári auk þess sem tæki úreldast og ný tækni kemur á markað fyrir meðferð og greiningu sjúkdóma auk nýrrar starfsemi. Verklag í klínískri starfsemi breytist og kallar á nýja tækni sem var ekki notuð áður og búnaður verður óhagkvæmur í rekstri og kallar á breytingu vegna hagkvæmni.

Á Landspítala fer fram mikið af starfsemi sem ekki er til staðar annars staðar í heilbrigðiskerfinu hér á landi og í mörgum tilfellum reiðir starfsemin á landsvísu sig á tækjabúnað LSH, og má þar nefna röntgendeild, skurðstofur, gjörgæslu og rannsóknarstofur. Skiptir því miklu að rétt tæki séu til staðar og þau í lagi. Umfangsmikil starfsemi er innan LSH vegna þjónustu við tækin, bæði reglubundið eftirlit og einnig bráðaviðhald. Rík áhersla er lögð á að tæki í klínískri notkun séu í lagi og starfi eðlilega.

Lækningatæki eru nauðsynlegur hluti fyrir starfsemi LSH en fjármagn til endurnýjunar er aðeins lítið brot af heildarrekstri spítalans. Fjárveiting fyrir lækningatæki er nú um 0,6 prósent af fjárveitingu til rekstrar LSH og er það mun lægra en er á sambærilegum sjúkrahúsum á Norðurlöndum.

Í athugun frá 2002, frá nokkrum helstu háskólasjúkrahúsum á Norðurlöndunum sem sinna sambærilegum rekstri og Landspítali, er hlutfall fjárveitingar til tækjakaupa á móti fjárveitingu til reksturs frá 1,8 prósentum til 3,2 prósenta. Það ár var fjárveitingin 0,8 prósent á LSH. Hlutfallið hefur engu síður lækkað á undanförnum árum. Hlutfallið fyrir árið 2009 var um 0,53 prósent og verður um 0,68 prósent fyrir árið 2010.

Landspítali er því að fá hlutfallslega mun minna til tækjakaupa en sambærileg sjúkrahús á Norðurlöndunum. Þörfin fyrir endurnýjun er hins vegar jafnmikil hér og á þeim sjúkrahúsum sem samanburðurinn nær til.

Helsti veikleikinnÓlafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga, sagði í viðtali við Fréttablaðið fyrir stuttu að staðan væri mikið áhyggjumál. Það sé orðin veruleg þörf á venjulegum lækningatækjum. Þar má nefna öndunarvélar, ómtæki og línuhraðal, sem kostar til dæmis um 300 milljónir í stofnkostnað. „Með hverju árinu sem líður verður þessi þörf sífellt meiri og þá erum við ekki að tala um neinar nýjungar," sagði Ólafur og bætti við að samfélagið verði að gera upp við sig hvort kaupa á nýjustu tækni til landsins eða hvort senda eigi fólk til rannsókna til útlanda.

Guðmundur Þorgeirsson, prófessor í lyflækningum við Háskóla Íslands og fyrrverandi forstöðumaður hjartadeildar LS, telur að tækjamál LSH séu helsti veikleiki spítalans. Hann segir að mannafli, skipulag þjónustu, rannsóknir, kennsla og jafnvel húsakosturinn geri LSH að þeirri öflugu stofnun sem menn þekki. Það sé því úr takti að kaup og endurnýjun á tækjakosti spítalans sé háð þeim annmörkum sem raun ber vitni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×