Innlent

Eyjafjallajökull: Kröftugt sprengigos enn í gangi

MYND/Óskar Friðriksson

Enn er kröftugt sprengigos í gangi í Eyjafjallajökli að því er fram kemur í stöðuskýrslu frá Veðurstofunni og Jarðfræðistofnun Háskólans. Lítið sem ekkert hraunrennsli er niður Gígjökul og gufuvirkni þar í lágmarki. Dregið hefur úr sprengivirkni og gosið líkist nú því sem var fyrir aukninguna að kvöldi 5. maí og 6. maí.

„Enn má búast við gjóskufalli í nærsveitum en ekkert í líkindum við það sem var fyrstu daga gossins m.v virkni gossins í dag," segir ennfremur.

Klepragígur heldur áfram að hlaðast upp og nálgast brún ísketilsins og gosmökkurinn stígur ekki beint upp af gíg, heldur beygir undan vindi. Stakir bólstrar myndast í öflugustu sprengingunum. Þá segir að gjóskufall nálægt gíg hafi minnkað töluvert síðan 6. maí.

Á meðfylgjandi mynd sem tekin er í Vestmannaeyjum sést gosmökkurinn og öskufallið vel.

Á vefsíðu Mílu hefur einnig verið sett upp vefmyndavél sem sýnir hitamyndir af gosinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×