Innlent

Þingmannanefnd fundar um stjórnsýsluna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Atli Gíslason segir að fundað verði með stjórnsýslunefnd á morgun. Mynd/ GVA.
Atli Gíslason segir að fundað verði með stjórnsýslunefnd á morgun. Mynd/ GVA.
Þingmannanefnd sem fer yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur saman á morgun til þess að fara yfir skýrsluna.

Á fundinum munu mæta nefndarmenn úr nefnd sem forsætisráðherra skipaði til þess að fara yfir stjórnsýsluna. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, gegnir formennsku í þeirri nefnd. „Við erum búin að funda með þeim einu sinni áður og ætlum að stilla strengi til þess að við séum ekki að vinna tvíverknað," segir Atli Gíslason, formaður þingmannanefndarinnar. Þá mun þingmannanefndin funda með lögspekingum sem nefndin hefur sér til fulltingis en það eru þau Jónatan Þórmundsson, Ragnhildur Helgadóttir og Bryndís Hlöðversdóttir.

Þingmannanefndin kemur saman tvisvar í viku. Á fundi nefndarinnar á þriðjudag fyrir viku var rætt um gagnaver á Suðurnesjum og fyrirhugaðan samning ríkisins við Verne Holdings ehf. um byggingu og rekstur þess. Tveir nefndarmanna sitja einnig í iðnaðarnefnd, þau Lilja Rafney Magnúsdóttir og Atli Gíslason. Samkvæmt fundargerð greindi Lilja Rafney frá þeirri ákvörðun sinni að víkja úr iðnaðarnefnd á meðan málefni Verne Holdings ehf. eru þar til umræðu þar sem einn eigenda fyrirtækisins er jafnframt til umfjöllunar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda bankahrunsins. Umræddur eigandi er Björgólfur Thor Björgólfsson.

Atli Gíslason segist einnig hafa vikið úr iðnaðarnefnd á meðan að málefni Verne Holdings eru rædd þar, líkt og Lilja Rafney.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×