Innlent

Sóltún breytist í París með rauðvíni og söng

Íbúar, ættingjar og starfsmenn hafa glaðst saman á Frönskum dögum í Sóltúni. Fréttablaðið/Vilhelm
Íbúar, ættingjar og starfsmenn hafa glaðst saman á Frönskum dögum í Sóltúni. Fréttablaðið/Vilhelm
„Það hafa allir mikla gleði af þessu, ekki síður ættingjar en starfsmenn og íbúar,“ segir Anna Birna Jensdóttir, hjúkrunarforstjóri í Sóltúni þar sem nú standa yfir Franskir dagar.

Í Sóltúni eru 92 íbúar í tólf álmum, sem hver og ein valdi sér að vera eitt af hverfum Parísar þessa vikuna og skreytti húsnæðið á viðeigandi hátt.

„Nú förum við í Óperuhverfið, Latínuhverfið og Gyðingahverfið. Fólk er líka í gervum. Ein er til að mynda Coco Chanel og einn er Sarkozy. Menn koma með myndasýningar frá dvöl sinni úti og það eru fánar úti um allt. Ég held að það sé ekki til frönsk bók á bókasöfnum bæjarins því þær eru allar komnar hér í hús,“ segir Anna, sem lýsir stemningunni sem einstaklegra ljúfri.

„Ættingjar sem hafa búið í París mættu með franskar bókmenntir og málverk. Fólk kemur hér með alls kyns víntegundir sem er í boði að smakka. Bara nefndu það, það er allt hér í umferð,“ segir Anna og játar að fjörið sé svo mikið í Sóltúni þessa dagana að við liggi að allt sé að fara úr böndunum. „Það liggur við. Ég get ekki borið alveg fulla ábyrgð á þessu. Það er hér meira að segja vændishverfi, þetta er allur pakkinn!“

Á miðvikudag var frönsk kaffihúsastemning í Sóltúni. „Þá voru ostar og vín í kaffihúsinu okkar, Café de Fleur. Elín Pálmadóttir blaðamaður hélt glæsilegt erindi fyrir fullum sal um sögu franskra sjómanna við Íslandsstrendur í máli og myndum. Á morgnana höfum við sýnt franskar bíómyndir, meðal annars um Edith Piaf,“ segir Anna.

Matseðilinn í Sóltúni hefur verið franskur alla vikuna. Í gærkvöld var hátíðarkvöldverður með lambalæri og franskri súkkulaðitertu í eftirrétt og ætluðu um fimmtíu ættingjar að vera viðstaddir. Eftir kvöldverðinn söng Brynhildur Guðjónsdóttir leikkona franska söngva við undirleik Jóhanns G. Jóhannssonar. Og dómnefnd íbúafélagsins veitti verðlaun fyrir hugmyndaauðgi, frumleika og fleira.

„Það er alveg sama hvernig heilsan er; manneskjur eru tilfinningaverur og tilfinningagreindin fer ekki neitt. Við leikum okkur með hana og njótum lífsins saman – það eru lífsgæði fólgin í því,“ segir Anna Birna Jensdóttir.

gar@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×