Íslenski boltinn

Bjarni: Spilaðist eins og við lögðum upp

Oddur Óli Jónasson í Charlotte skrifar
Bjarni átti flottan leik í nótt.
Bjarni átti flottan leik í nótt.

„Þetta gekk mjög vel. Leikurinn var nákvæmlega eins og við settum hann upp," sagði Bjarni Guðjónsson, leikmaður KR, sem var fyrirliði Íslands í leiknum gegn Mexíkó í nótt.

„Við ætluðum að liggja til baka og leyfa þeim að hafa boltann. Það gekk fullkomlega. Við ætluðum að taka fast á þeim þegar þeir kæmu inn á síðasta þriðjunginn."

Mexíkó er að undirbúa sig fyrir heimsmeistaramótið í Suður-Afríku í sumar. „Þeir eru með átta leikmenn í Evrópu en þessir voru að berjast fyrir fyrir hinum sextán sætunum fyrir HM. Það er því ekki hægt að segja að þessi leikur hafi ekki skipt þá neinu máli," sagði Bjarni.

„Það er gaman að fá svona æfingaleiki og við litum á þetta sem alvöru leik. Við vorum að spila á risavelli og fullt af áhorfendum. Þetta er frábær reynsla fyrir flesta í hópnum."

Það hefur ekkert farið um Bjarna í blálokin þegar Gunnleifur Gunnleifsson markvörður þurfti að verja í tvígang? „Hann er nú í markinu til að verja þetta grey. Þó hann verji tvisvar til þrisvar í leik þá læt ég það nú vera," sagði Bjarni kíminn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×