Innlent

Flóttamaður fær ekki búsetuleyfi

Útlendingastofnun hefur synjað flóttakonu á þrítugsaldri um búsetuleyfi en hún kom hingað til lands í boði íslenskra stjórnvalda frá Kólumbíu fyrir fimm árum. Stofnunin telur að konan geti ekki framfleytt sér á námsstyrk til að klára stúdentspróf sem hún þáði frá félagsþjónustunni.

Jeimmy Andrea kom til Íslands ásamt hópi flóttamanna frá Kólumbíu í október 2005. Hópurinn kom í boði íslenskra stjórnvalda og var fólkið talið í mikilli neyð í heimalandi sínu. Jeimmy hefur klárað stúdentspróf og er á öðru ári í spænsku og íslensku fyrir útlendinga í háskólanum. Einnig er hún í hundrað prósent vinnu. Henni var nýlega synjað um búsetuleyfi.

Hún þáði námsstyrk frá Félagsþjónustunni veturinn 2006 og sjö til að klára stúdentsprófið. Með því að þiggja hann var hún undir framfærslumörkum á því tímabili sem veldur því að hún fær ekki afgreitt búsetuleyfi. Málið hefur verið kært til dómsmálaráðuneytisins.

Bjarni Jónsson úr stuðningsfjölskyldu Jeimmyar segir synun Útlendingastofnunar fráleita sérstaklega þar sem hún hafi komið til landsins í boði íslenskra stjórnvalda.

Og Jeimmy Andrea er ekki eini flóttamaðurinn í þessari stöðu. Maður frá Balkanskaganum á svipuðum aldri sem kom hingað sama ár og hún fær heldur ekki búsetuleyfi þar sem hann þáði námsstyrk frá félagsþjónustunni. Rauði krossinn hefur gagnrýnt útlendingalöggjöfina.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×