Innlent

Steingrímur leiðréttir fréttaflutning

Spurning fréttamanns var gerð að orðum ráðherra.
Spurning fréttamanns var gerð að orðum ráðherra.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hefur sent frá sér tilkynningu í tilefni af því að í gær tóku einhverjir fjölmiðlar spurningu blaðamanns að loknum ríkisstjórnarfundi og gerðu að orðum Steingríms. Steingrímur segir að þó málið sé ekki stórt sé mikilvægt að koma réttum upplýsingum á framfæri.

„Á blaðamannafundinum spurði fréttamaður; hvort ég teldi að handtökur í tengslum við rannsókn sérstaks saksóknara sefuðu óánægju almennings. Þau orð komu ekki úr mínum munni enda væri með öllu óviðeignadi að líta svo á að aðgerðum sérstaks saksóknara væri ætlað að þjóna slíkum tilgangi," segir Steingrímur. „Enda var svar mitt að handtökurnar væru til marks um að aukinn þungi væri að færast í rannsókn mála hjá embættinu, verið væri að verja til þess miklum og auknum fjármunum og ósk um gæsluvarðhald væri væntanlega til marks um að málin teldust alvarleg."

Steingrímur segir að af þessu geti almenningur ráðið að hugur fylgir máli bæði af hálfu stjórnvalda og þeirra sem með rannsóknina fara. „Frelsissvipting er hins vegar alltaf alvörumál og einangrunarvist þungbær hverjum þeim sem hana verður að þola," segir Steingrímur að lokum.






Tengdar fréttir

Handtökurnar marka tímamót í endurreisninni

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að aðgerðir sérstaks saksóknara í gær marki tímamót í endurreisn íslensks samfélags eftir bankahrun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×