Enski boltinn

Leeds tapaði og tókst ekki að tryggja sig upp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Doyle svekkir sig yfir einu af færum Leeds sem fóru forgörðum í dag.
Michael Doyle svekkir sig yfir einu af færum Leeds sem fóru forgörðum í dag. Mynd/Getty Images
Leeds United náði ekki að tryggja sér sæti í ensku b-deildinni í dag þrátt fyrir að keppinautar þeirra í Millwall töpuðu 0-2 fyrir Tranmere. Leeds tapaði 0-1 fyrir Charlton á sama tíma og þarf því að bíða í eina viku eftir því að komast upp.

Leeds-leikmaðurinn Richard Naylor varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir skyndisókn tveimur mínútum fyrir leikslok en Leeds mistókst að nýta mörg góð færi í þessum leik. Charlton á enn möguleika á að fara beint upp því liðið er nú aðeins tveimur stigum á eftir Leeds.

Leeds United mætir Bristol Rovers á Elland Road í lokaumferðinni og það má búast við því að 38 þúsund manns troðfylli völlinn til þess að hjálpa gamla stórveldinu að stíga stórt skref í átt að því að komast aftur upp í úrvalsdeildina.

Norwich er með 95 stig og hefur þegar tryggt sér sæti í b-deildinni en síðan koma fjögur lið með 81 til 83 stig sem keppast um það í lokaumferðinni að fylgja Norwich upp. Tvö efstu liðin fara beint upp en næstu fjögur keppa um síðasta sætið í úrslitakeppni. Leeds er með 83 stig, Millwall og Swindon eru með 82 stig og Charlton hefur 81 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×