Innlent

Funda með stjórnarandstöðunni

Formenn stjórnmálaflokkanna hittust á mánudag ásamt Þráni Bertelssyni og Birgittu Jónsdóttur.
Formenn stjórnmálaflokkanna hittust á mánudag ásamt Þráni Bertelssyni og Birgittu Jónsdóttur. Mynd/Stefán Karlsson

Formenn stjórnmálaflokkanna hittast að nýju í dag til að ræða mögulega sátt allra flokka í Icesave málinu. Eftir samskonar fundar á mánudag sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, að markmiðið væri að koma málinu í sáttafarveg við Breta og Hollendinga.

Forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna þriggja funduðu í gær. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, segir að hún og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hafi verið að stilla saman strengi sína.

Í Fréttablaðinu í dag segir að oddvitar ríkisstjórnarinnar bíði nú viðbragða frá stjórnarandstöðunni. Þeir vilji að stjórnarandstaðan lýsi yfir þeim samningsmarkmiðum sem hún vilji stefna að og hvað verði hægt að ná samstöðu um í viðræðum við Breta og Hollendinga.

„Mér finnst að við eigum ekki að setja upp nein samningsviðmið fyrr en við erum búin að fá sáttasemjara. Þetta snýst frekar um það hvort þau séu til í að fá sáttasemjara," segir Birgitta.

Hún segir miklar efasemdir um hvort Íslendingum beri lagalegar skuldbindingar til að taka á sig skuldir vegna Icesave reikninganna. „Ég er alltaf að komast nær og nær þeirri niðurstöðu að við eigum að fá utanaðkomandi aðila til að fá ferskan vinkil í málið og næstu skref," segir Birgitta. „Ég held að það væri áhugavert að fá lánaða dómgreind hjá einhverjum sem hefur reynslu af milliríkjadeilum."

Fundur formanna flokkanna fer fram í forsætisráðuneytinu og hefst klukkan sex.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×