Innlent

Stjórnin bíður viðbragða andstöðunnar

Formenn stjórnmálaflokkanna hittust á mánudag ásamt Þráni Bertelssyni og Birgittu Jónsdóttur. fréttablaðið/stefán
Formenn stjórnmálaflokkanna hittust á mánudag ásamt Þráni Bertelssyni og Birgittu Jónsdóttur. fréttablaðið/stefán
Búist er við að formenn stjórnmálaflokkanna hittist að nýju í dag til að ræða mögulegar samningaviðræður um Icesave.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins bíða oddvitar ríkisstjórnarinnar viðbragða frá stjórnarandstöðunni. Þeim þykir standa upp á hana að lýsa yfir þeim samningsmarkmiðum sem hún vill stefna að, um hvað verði hægt að ná samstöðu í viðræðum við Breta og Hollendinga. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sögðu báðir á mánudag ótímabært að nefna samningsmarkmið. „Við höfum ekki farið út í nein smáatriði samningsins á meðan það hefur ekki einu sinni legið fyrir að stjórnin telji að það þurfi að fá nýjan samning,“ sagði Sigmundur Davíð í gærkvöld. Hann gagnrýndi ráðherra ríkisstjórnarinnar fyrir yfirlýsingar síðustu daga. „Ég hafði skilið það sem svo að menn ætluðu að sleppa öllum yfirlýsingum á meðan verið væri að finna einhverja lausn.“

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins verður ekki farið í viðræður við Hollendinga og Breta nema fyrir liggi samkomulag stjórnmálaflokkanna um markmið. Þá verði tryggt að slíkur samningur haldi. Fyrr séu viðsemjendur ekki til viðræðna um nýja samninga og fyrr sé ekki ástæða fyrir ráðherra til að setjast yfir málið. Ráðherrar og embættismenn hafa þó hitt breska og hollenska kollega sína undanfarið.- kóp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×